Fyrrum íslenskt metaflaskip verður fóðurprammi í Mexíkó

Deila:

„Við erum búnir að vera með þetta í tvö ár og í miklu brasi með vélina og fleira. Nú er búið að skipta um vél í honum í Hafnarfirði og við erum að fara með hann til Mexíkó, til Ensenada á Kyrrahafsströndinni. Þetta eru 7.000 mílur hvorki meira né minna. Þetta eru 33% af hringum í kringum jörðina.“

Þetta segir Axel Jónsson, skipstjóri sem er  að fara með fiskiskipið Janus, áður Börk og síðar Birting frá Hafnarfirði til Ensenada í Mexíkó. Þar verður þetta mikla aflaskip notað sem fóðurprammi við túnfiskeldi.

Axel Jónsson skipstjóri er á leið með Janus til Mexíkó.

Kvíðir hitanum í Panama

„Við förum í gegnum Panamaskurðinn og síðan uppeftir á áfangastað. Þetta tekur að minnsta kosti 30 daga, ef allt gengur upp. Við siglum beint til Panama, förum í gegnum skurðinn og tökum olíu hinumegin. Það eru  4.100 mílur til Panama og rúmar 2.700 þaðan upp til Ensenada, sem er 150 kílómetrum sunnan við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. Þar skilum við honum af okkur ef Guð lofar. Hingað til hefur margt gengið á afturfótunum og því þurfum við alla þá blessun sem við getum fengið til að klára dæmið.“ Segir Axel.

Axel hefur farið í svipaða langferð áður en á sínum tíma fór hann með bát til Perú. „Ég man ennþá hvað það var heitt í Panama. Ég kvíði ægilega fyrir því helvíti. Þetta var eins og að vera innilokaður í gufubaði og engin leið út. En ég lofaði þessu því miður.“

Markús Alexandersson

Sex manns eru í áhöfninni, tveir í brúnni, þrír í vélinni og einn kokkur. Skipstjóri á móti Axel er hinn gamalreyndi Markús Alexandersson. Hann er kominn á níræðisaldurinn og hefur siglt um heimsins höf í meira en 60 ár. Hann kvíðir ekki ferðinni, enda segist hann helst vilja fara í langar siglingar. Hann var á árum áður á bananaskipum, sem fluttu banana milli Miðameríkulandanna og Bandaríkjanna.

Fyrirtækið sem festi kaup á Janusi heitir Baja Aqua-farms og var stofnað árið 2000. Á vegum fyrirtækisins er veiddur túnfiskur sem er áframalinn í kvíum upp í sláturstærð. Janusi er ætlað að gegna hlutverki fóðurskips en í honum verður fóðurfiskur geymdur í kælilestum sem síðan verður dælt í kvíarnar. Einnig er fyrirhugað að Janus leggi stund á veiðar í einhverjum mæli á ákveðnum tímum ársins.  Axel sá um kaupin á Janusi fyrir mexíkósku kaupendurna og hefur séð um gang mála hér heima.

Janus var áður í eigu Síldarvinnslunnar og bar lengst af nafnið Börkur og síðan Birtingur. Skipið var selt pólsku fyrirtæki árið 2016 og fékk þá nafnið Janus. Janus var gerður út til kolmunnaveiða vorið 2017 en þá um sumarið var skipinu síðan lagt og lá það bundið við bryggju á Seyðisfirði í tæplega eitt ár, en sumarið 2018 var það flutt til Reyðarfjarðar. Á Reyðarfirði lá það þar til því var siglt til Akureyrar þar sem Slippurinn sinnti ýmsum verkefnum áður en nýir eigendur tóku við því og það hverfur endanlega úr landi.

Deila: