Nýr fóðurprammi til Háafells

Deila:

Háafell ehf fékk sinn fyrsta fóðurpramma, Ögurnes, til landsins á föstudaginn. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri fiskeldis segir að fyrirtækið muni þurfa þrjá pramma fyrir eldið í Ísafjarðardjúpi, einn pramma fyrir hvert kvíastæði.

Prammarnir eru mjög fullkomnir, þeim er stjórnað úr landi og tryggð er jöfn og góð fóðrun á staðsetningunni. Fóðurpramminn Ögurnes er útbúinn spenni fyrir landtengingu. Það er norska fyrirtækið Akvagroup sem smíðar prammann en hann tekur 450 tonn af fóðri, er 22 metrar á lengd og 12 metrar á breidd.

Að sögn Geirs kostaði pramminn um 330 m.kr. þegar hann var pantaður en búast megi við því að vegna verðhækkana kosti ný prammi nú um 400 m.kr. Samkvæmt þessu munu prammarnir þrír fyrir laxeldið í Ísafjarðadjúpi kosta um 1,2 milljarða króna.

Háafell hefur leyfi fyrir eldi á 6.800 tonnum af laxi. Miðað við verðin á eldislaxi má ætla að útflutningsverðmæti á framleiðslunni sé um 7 milljarðar króna á ári.

Háafell býður öllum áhugasömum að koma á að skoða fóðurprammann í innri höfninni á Ísafirði fyrir fram Edinborg mánudaginn 4. júlí á milli klukkan 16 og 18. Léttar veitingar verða í boði.
Frétt og mynd af bb.is

 

Deila: