Fengu túnfisk í dragnótina

Deila:

Það hljóp heldur betur á snærið hjá skipverjum á Ísey í gær. Þeir fengu þá risavaxinn túnfisk í dragnótina rétt sunnan við Eldey. Þeir gerðu að fiskinum eftir kúnstarinnar reglum, skáru úr honum tálknin og hreinsuðu vandlega innan úr honum og kafísuðu hann síðan ofan í lest.

Grétar Þorgeirsson, skipstjóri á Ísey, segist í fyrstu ekki hafa gert sér grein fyrir því hve stór fiskurinn væri, en við löndun reyndist hann 211 kíló og 250 sentímetra langur. Hann segir að krókur og línustubbur hafi verið í fiskinum svo hann hafi greinilega slitið sig af línu einhvers staðar. Hvar það hafi gerst sé erfitt að segja um því engin íslensk skip stundi túnfiskveiðar nú og hafi ekki gert í nokkur ár.

Fiskurinn er fer á fiskmarkað Grindavíkur og verður boðinn upp í dag, Grétar segist vona til að einhver vilji kaupa fiskinn enda sé þetta víða eftirsóttur fiskur.

Ísland er með töluverðan kvóta í túnfiski, en hefur ekki nýtt hann undanfarin ár. Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir stundaði túnfiskveiðar um tíma á línuskipinu Jóhönnu Gísladóttur. Grétar segist hafa tilkynnt Fiskistofu um veiðina og þeir sent honum rafrænt eyðublað til að tilkynna um hana og jafnframt óskað honum til hamingju með fiskinn.
Á efri myndinni eru bræðurnir Hafsteinn og Grétar Þorgeirssynir við löndun á túnfiskinum og þeirri neðri er Ísey í innsiglingunni í Grindavík.

 

Deila: