Gervigreind til aldursgreiningar á kvörnum!

Deila:

Miðvikudaginn 12. október, kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Hafsteinn Einarsson flytur erindið: Aldursgreining kvarna með aðferðum á sviði gervigreindar.

Erindið verður streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar.

Ágrip
Aldursgreining kvarna er mikilvægt verkefni sem getur hjálpað okkur að meta stofnstærð fisktegunda við landið. Í dag er aldur kvarna lesinn af sérfræðingum og er það takmarkandi þáttur við lestur kvarnanna. Til að auka magn kvarna sem eru lesnar er því áhugavert að rannsaka að hvaða leyti megi framkvæma aldursgreiningu með sjálfvirkum hætti. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og í því var unnið að þróun sjálfvirkrar aðferðar til aldursgreiningar á kvörnum. Aðferðin er einföld en hún byggir á greypingarlíkani fyrir myndir sem kallast CLIP (contrastive language image pretraining) sem notað er til að greypa myndirnar og eru greypingarnar svo greindar með einföldum líkönum. Við beittum aðferðinni á myndir af kvörnum úr skarkola, þorski, lúðu og ýsu og við fengum betri niðurstöður í kvarnagreiningunni heldur en fengist hafa með birtum líkönum á sviði tölvusjónar. Aðferðin er reiknilega skilvirk því ekki þarf að fínþjálfa stór tauganet til að beita henni. Einnig er hún skilvirk þegar kemur að nýtingu gagnanna, því hægt er að fá sömu frammistöðu og með eldri líkönum með allt að þrefalt minna af gögnum. Við greindum einnig hvort gagn væri af því að hafa meira af merktum gögnum og við sáum að líkanið myndi að öllum líkindum standa sig betur ef meira af aldurslesnum kvörnum væru í boði.

Um Hafstein
Hafsteinn Einarsson er lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands með doktorsgráðu í tölvunarfræði frá ETHZ (Eidgenössische Technische Hochschule Zürich) í Sviss. Hann vinnur einnig að rannsóknum hjá Íslenskri Erfðagreiningu. Hann hefur stundað rannsóknir á sviði strjállar stærðfræði, taugavísinda, gervigreindar og máltækni.

 

Deila: