Fisktækniskólinn verðlaunaður

Deila:

Nordplus Aurora verlaunin eru veitt því verkefni á sviði leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem talið er hafa skarað frammúr á árinu. Verkefni Fisktækniskólans, sem hlýtur verðlaunin í ár, var til þriggja ára og hefur að markmiði að mynda samstarfsnet allra sérskóla á Norðurlöndum á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis.

Að sögn Ólafs Jóns Arnbjörnssonar, skólameistara Fisktækniskóla Íslands, þá hófst þessi vegferð fyrir rúmum 13 árum „þegar við fengum stuðning Vest-norrænu skrifstofunnar í Færeyjum (NORA) til að tengja saman skóla í Grænlandi, Íslandi, Færeyjum og vestanverðum Noregi. Við víkkuðum síðan út samstarfið hægt og rólega og eru nú alls níu skólar í samstarfsnetinu – og frá öllum Norðurlöndum og svæðum – nema reyndar Svíþjóð, „en við erum að vinna að því að bæta þeim við í næstu lotu, segir Ólafur Jón“.

Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistara Fisktækniskóla Íslands, með verðlaunin.

„Það þarf vart að nefna hversu mikilvægt það var fyrir okkur – sem voru að undirbúa stofnun skólans í Grindavík – að hafa aðgang að reynslu nágranna okkar og ekki síður að fá aðgang að öllu því náms- og kennsluefni sem þessir skólar höfðu, sem var jú afar takmarkað hér þegar við vorum að fara af stað fyrir rúmum 12 árum. Við nutum sérstaklega góðs af þessu framan af segir Ólafur, og þá einkum á sviði fiskeldis. „En síðustu árin höfum við geta stutt samstarfsaðila okkar á þeim sviðum sem við höfum haft yfirburði, svo sem á sviði vinnslu- og veiðarfæratækni. Þá höfum við notið góðs af því að nemendur okkar hafa fengið verklega þjálfun hjá vinaskólum okkar – við aðstæður og búnað sem við höfum ekki haft efni á að koma okkur upp.

Norræna ráðherranefndin hefur í tvígang styrkt verkefnið undir þessari áætlun Nordplus. Fyrst árið 2016, en einnig í þessum hluta verkefnisins (2018-2022) sem lýkur formlega nú í desember. Ég reikna fastlega með að við – hópurinn – komum til með sækja um að nýju og hættum ekki fyrr en allir verknámsskólar á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis á Norðurlöndum verða komnir í samstarfsnetið.

Norðmenn standa afar vel að baki sinum 13 fisktækniskólum – og hafa flestir skólarnir bæði skólaskip og veiðikvóta auk fyrirmyndaraðstöðu til verklegrar kennslu. En þó svo skólarnir standi misvel að vígi hvað þetta varðar, þá eiga þeir það flestir sameiginlegt að vera frekar litlir sérskólar og oftast tengdir minni sjávarbyggðum. Faglega, eigum við einnig mjög mikið sameiginlegt. Þetta er jú Norður Atlantshafið! Þetta er sami fiskurinn, sömu veiðafæri, vinnsluaðferðir og markaðir og fiskeldið mjög svipað. Við glímum einnig við sömu vandamálin hvað varðar nýliðun og áhuga ungs fólks á námi og starfi innan bláa hagkerfisins. Við eigum, hvað þetta varðar – meira sameiginlegt innbyrðis og yfir landamærin, en með öðrum framhaldsskólum í heimalandinu. Með því að tengja skólana saman – „svona í toppnum“ hefur okkur tekist að tala sterkari röddu og hafa ótal „spinn-off“ verkefni farið af stað í skjóli samstafsnetsins síðustu 10 árin.

Við höfum tekið við ótal hópum nemenda og kennara frá samstarfsskólum okkar, en höfum svo einnig notið góðs af og sent okkar nemendur og kennara til þjálfunar í hinum löndunum – svo sem í frábærri aðstöðu til kennslu í fiskeldi í Noregi sem og siglingafræði og vélahermum svo fátt eitt sé nefnt. Slíka aðstöðu höfum við ekki getað boðið okkar nemendum uppá sökum smæðar.“

 

Deila: