María Júlía í slipp á Akureyri

Deila:

Tekin hefur verið ákvörðun um að gera upp hið sögufræga björgunar- og varðskip Maríu Júlíu. Skipið hefur legið við bryggju á Ísafirði árum saman og verður dregið þaðan í slipp á Akureyri. Frá þessu er greint á ruv.is

Björgunarskip, varðskip, hafrannsóknaskip

María Júlía BA 36 kom til landsins árið 1950 sem fyrsta björgunarskip Vestfirðinga. Skipið kom víða við á áratuga ferli, varð eitt varðskipanna í fyrsta landhelgisstríði Íslendinga og einnig notað við hafrannsóknir.

„Eitt mikilvægasta skip til varðveislu sem við eigum“

„María Júlía er eitt mikilvægasta skip til varðveislu sem við eigum,“ segir Jón Sigurpálsson, talsmaður Hollvinasamtaka Maríu Júlíu. Eftir áralanga baráttu hefur loksins tekist að bjarga skipinu frá eyðileggingu. Þar skipti miklu 15 milljóna króna fjárveiting úr ríkissjóði til verkefnisins. „Þegar þetta fé ríkisstjórnarinnar kom þá opnuðust svolitlar gáttir og atvinnulífið vildi gjarnan taka þátt í því.“

Í viðgerð á Akureyri og Húsavík

Landhelgisgæslan hefur tekið að sér að draga Maríu Júlíu frá Ísafirði, þegar færi gefst, í slipp á Akureyri. Eftir fyrstu viðgerð þar fer skipið til Húsavíkur þar sem næstu skref verða tekin. „Svo var nú hugsunin að koma henni aftur hingað og gera þá það sem hægt er að vinna hér á Ísafirði,“ segir Jón.

Lítil prýði af skipinu í Ísafjarðarhöfn

María Júlía hefur legið í Ísafjarðarhöfn árum saman og varla haft gott af því. Líklega verða margir Ísfirðingar fegnir þegar skipið fer loksins þaðan, en um leið glaðir yfir því að það er að fara í viðgerð. „Já, ég held að margir verði fegnir,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. „Það er engin prýði af henni eins og hún er hér í höfninni og er bara að grotna niður. Það þarf að koma henni í einhverjar betri hendur.“

Myndi sóma sér vel sem opinbert móttökuskip

Jón segir ýmsar hugmyndir uppi um notkun skipsins þegar viðgerð er lokið. Í ákveðinni tegund ferðaþjónustu, sem skólaskip, svo eitthvað sé nefnt. „Og ég sé Maríu Júlíu fyrir mér sem opinbert móttökuskip eins og allar siglingaþjóðir eiga.“

 

Deila: