Slitnað upp úr við­ræðum hjá Iceland Sea­food

Deila:

Iceland Seafood International (ISI) tilkynnti í byrjun síðustu viku um að það hefði skrifað undir viljayfirlýsingu við virtan aðila í iðnaðinum um sölu á breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK. ISI tilkynnti í gærmorgun að viðræður síðustu daga hefðu ekki borið árangur og því hafi þeim verið slitið. Frá þessu er greint á vb.is

„Iceland Seafood verður nú í samskiptum við aðra áhugasama aðila,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Félagið hyggst senda frá sér tilkynningu ef formlegar viðræður hefjast.

Stjórn ISI ákvað nýlega að yfirgefa Bretlandsmarkað, þar sem rekstur breska dótturfélagsins hefur gengið erfiðlega á síðustu þremur árum. Ráðgjafarfyrirtækinu MAR advisors var falið að leiða söluferlið.

Árið 2020 ákvað Iceland Seafood að sameina bresku dótturfélög sín í eitt félag, Iceland Seafood UK, í nýrri verksmiðju í Grimsby. Sameiningarferlið reyndist ISI flóknara og kostnaðarsamara en lagt var upp með. Félagið lýsti því að aðstæður vegna COVID-19 og óvissu í kringum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefðu sett strik í reikninginn.

„Frammistaðan í Bretlandi hefur grafið undan arðsemi samstæðunnar að því marki að stjórnin telur að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram á sömu braut,“ sagði ISI í uppgjörstilkynningu fyrir þriðja fjórðung. Þá hafi stjórnendur félagsins varið miklum tíma í að vinna úr aðstæðum á Bretlandi fremur en að sækja vaxtartækifæri annars staðar.

Í árshlutareikningi Iceland Seafood fyrir þriðja ársfjórðung kemur fram að félagið hafi fært niður viðskiptavild vegna Iceland Seafood UK að fullu, eða um 1,6 milljónir evra. Það samsvarar um 240 milljónum króna miðað við gengi dagsins.

 

Deila: