Hátt á þriðja hundrað tonn í rækjubætur
Alls 2.042 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi fiskveiðiárs sem skel- og rækjubótum en það er um 500 tonnum meira en í fyrra og fara þau til 40 skipa samanborið við 30 skipa á fyrra ári. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Bæturnar eru til að bæta útgerðum tap vegna takmarkaðra eða engra rækju- og skelveiða. Alls koma 281 þorskígildistonn í hlut báta og skipa á sunnan og norðanverðum Vestfjörðum. Mest fer til útgerða sem eiga rækjukvóta í Arnarfirði, eða 145 tonn og 128 tonn fara til útgerða sem eiga rækjukvóta í Ísafjarðardjúpi. Við bætast átta tonn í skelbætur í Arnarfirði.
Af einstökum skipum á svæðinu koma stærstu bæturnar í hlut Júlíusar Geirmundssonar ÍS, eða 75 þorskígildistonn. Næst mestu er úthlutað til Egils ÍS, eða 52 þorskígildistonnum.
Rækjubæturnar eru miðaðar við að skerðingin verði ekki meiri en 30% frá meðalafla rækjuvertíðanna 1996/1997 – 2005/2006 að frádregnum afla í innfjarðarrækju fiskveiðiársins 2016/2017 og verðmætastuðullinn fyrir rækju er 0,52, miðað við þorskígildi.
Mynd og texti af bb.is