LS leggur til að dögum verði fækkað
Landssamband smábátaeigenda leggur til að í stað svæðaskiptingar á strandveiðum verði veiðidögum í mánuði hverjum fækkað úr 12 í 11 samfara því að heimild Fiskistofu til að stöðva veiðar þegar ákveðnum heildarafla sé náð verði felld burt. Þetta kemur fram á vef sambandsins. Með þessu móti megi tryggja það jafnræði sem á að felast í breytingartillögu ráðherra á lögum um stjórn fiskveiða vegna strandveiða.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mælti fyrir breytingartillögunni á þingi þann 23. mars síðastliðinn. Í henni felst að svæðaskipting aflaheimilda verði tekin upp að nýju og aflaheilmildum skipt á milli landssvæða eftir fjölda báta. Eftir fyrstu umræðu var málinu vísað til atvinnuveganefndar, þar sem það situr enn.
Samkvæmt heimildum Auðlindarinnar þykir afar ólíklegt að frumvarpið verði afgreitt úr atvinnuveganefnd og lagt til annarrar umræðu í þinginu í tæka tíð. Málið hafi enn ekki verið sett á dagskrá í atvinnuveganefnd, nú þegar nokkrir virkir dagar eru þar til strandveiðar eiga að hefjast.
Umsagnafrestur vegna frumvarpsins er liðinn og bárust nefndinni 11 umsagnir. LS segir á vef sínum, og vísar í upplýsingar frá Matvælaráðuneytingu, að von sé á reglugerð um strandveiðar í næstu viku.