Slippurinn Akureyri sækir fram á fleiri þjónustusviðum

Deila:

„Slippurinn Akureyri er þekktur fyrir sína fjölbreyttu og afbragðs góðu þjónustu við fiskiskipaflotann í Norður-Atlantshafi. Undanfarin ár hefur fyrirtækið unnið ötullega að því að útvíkka þjónustu sína við fleiri atvinnugreinar, svo sem með smíði fiskvinnslubúnaðar, þjónustu við fiskeldi og aðrar greinar. Á þann hátt erum við markvisst að fjölga stoðum undir rekstrinum. Fiskiskipum hefur farið fækkandi undanfarin ár á Íslandi og í okkar rekstri kemur það fram í því að hærra hlutfall tekna kemur úr öðrum þáttum en beinni slippþjónustu.

Þjónustustig Slippsins hefur verið aukið með auknu vöruframboði vinnslubúnaðar sem og að hér fá útgerðaraðilar heildarþjónustu, nýsmíði vinnslubúnaðar og niðursetningu auk hefðbundinnar slippþjónustu. Skipaþjónustan er og verður áfram okkar stærsta þjónustusvið enda höfum við mikla sérþekkingu í skipaþjónustu hjá okkar starfsfólki og höfum virkilega góða aðstöðu og tækjabúnað til að þjónusta skip,“ segir Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri ehf. Í dag eru starfsmenn Slippsins Akureyri ehf. Um 150 talsins á ársgrundvelli en Páll segir að á háönn skipaþjónustunnar, sem nú fer í hönd, fjölgi starfsmönnum í um 190.

„Sumartíminn er annasamur í skipaþjónustunni og hjá okkur er mikið bókað í sumar og fram eftir hausti. Verkefni hafa líka verið að bókast á næsta ári þannig að almennt má segja verkefnastaðan á næstunni sé góð,“ segir Páll. Ný tækifæri með starfsstöð í Grindavík Um mitt ár 2022 keypti Slippurinn Akureyri húsnæði, framleiðslubúnað og hluta hönnunar Martaks í Grindavík sem framleitt hefur fiskvinnslubúnað um árabil. Hluti starfsmannahóps Martaks færðist með þessu yfir til Slippsins Akureyri og áfram er unnið af fullum krafti í framleiðslu búnaðar í Grindavík.

„Með kaupunum vorum við að sækja okkur þekkingu og framleiðsluaðstöðu fyrir vörulínu sem er þekkt vara á markaði. Með staðsetningu nýju starfsstöðvarinnar í Grindavík erum við líka í góðri stöðu til að þjónusta ört vaxandi landeldi á Reykjanesi. Þessu til viðbótar sjáum við tækifæri í því að auka skipaþjónustu okkar á svæðinu með tilkomu starfsstöðvarinnar í Grindavík,“ segir Páll en smíði vinnslubúnaðar Slippsins er nú bæði á Akureyri og í Grindavík, sem og hönnun.

Nánar er fjallað um Slippinn í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Deila: