Niðurstöður netarallsins

Deila:

„Ástand þorsks er um eða undir meðaltali tímabilsins 1996-2023. Talsverður breytileiki er þó á ástandi á milli svæða, aldurshópa og lengdarflokka. Verulegar breytingar hafa orðið á meðalþyngd þorsks eftir aldri á rannsóknartímanum.” Þetta kemur fram í skýrslu Hafró um netarall, sem fram fór dagana 28. mars til 22. apríl 2023. 

Í skýrslunni eru sýndar lífmassavísitölur helstu fisktegunda er fást í netaralli, ásamt útbreiðslu háffiska, krabba, sjófugla og sjávarspendýra. Einnig er fjallað um merkingar á hrygningarþorski sem fram hafa farið í netaralli síðustu fjögur ár og gerð grein fyrir niðurstöðum merkinganna.

Farið er yfir framkvæmd og helstu niðurstöður stofnmælingar hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN, netarall) sem fór fram í 28. sinn dagana 28. mars til 22. apríl 2023.

Stofnvísitala hrygningarþorsks við Ísland er há í ár eins og hún hefur verðið síðastliðin 13 ár, en er heldur lægri en í fyrra. Lækkun stofnvísitölu frá síðasta ári má að mestu rekja til þess að minna fékkst í Fjörunni og á Selvogsbanka, en minni breytingar eru á öðrum svæðum. Þorskur 7-9 ára er algengastur í netaralli, og mest var af 8 ára þorski (árgangur 2015).

Ástand þorksins

Ástand þorsks (hér metið sem slægð þyngd og þyngd lifrar miðað við lengd) er um eða undir meðaltali tímabilsins 1996-2023. Talsverður breytileiki er þó á ástandi á milli svæða, aldurshópa og lengdarflokka. Verulegar breytingar hafa orðið á meðalþyngd þorsks eftir aldri á rannsóknar-tímanum. Meðalþyngd fór að hækka árið 2010 við vestanvert landið og við Norðurland, en hefur lækkað aftur síðustu ár. Meðalþyngd þorsks eftir aldri við Suðausturland var há í upphafi rannsóknartímans, fór síðan lækkandi en hefur hækkað aftur. Kynþroskahlutfall eftir aldri breytist lítið hjá algengustu aldurshópum milli ára.

Skýrsluna má lesa í heild hér.

Deila: