Síldin hverfur og snjóflóð fellur

Deila:

Í tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðu fyrirtækisins af og til út árið. Hér er fjallað um árin 1973 og 1974. Á þessum tíma var fyrirtækið að jafna sig á hvarfi síldarinnar en í árslok 1974 féllu snjóflóðin sem ollu því stórkostlegum skaða.

Árið 1974 hélt Síldarvinnslan aðalfund sinn hinn 5. október. Á fundinum var að sjálfsögðu rætt um rekstur og afkomu á árinu 1973 og einnig um stöðu fyrirtækisins á árinu 1974. Fram kom á fundinum að afkoman á árinu 1973 hefði verið góð og væri fyrirtækið búið að komast yfir erfiðasta hjallann vegna hvarfs norsku-íslensku síldarinnar árið 1967. Lokið væri við að endurskipuleggja fyrirtækið með tilliti til breyttra aðstæðna og þar skipti endurnýjun skipaflota þess mestu máli. Helstu tímamótin hvað útgerðina varðaði var tilkoma skuttogara en eins skiptu kaupin á Berki miklu máli, en Börkur var stórt skip sem sérstaklega var hugsað til loðnu- og kolmunnaveiða.

Á aðalfundinum var gerð grein fyrir hinum miklu fjárfestingum á árinu 1973. Börkur var keyptur á þessu ári og kom hann fyrst til heimahafnar í Neskaupstað í febrúar. Nýr skuttogari, Bjartur, bættist síðan í flota fyrirtækisins í mars, en fyrir var skuttogarinn Barði sem keyptur hafði verið 1970. Þá var fjallað um fjárfestingar í landi. Ný fiskmóttaka hafði verið reist við frystihúsið og eins var byggt hús yfir fiskúrgang sem gjörbreytti lífsskilyrðum mávanna til hins verra. Þá var fjárfest í saltfiskverkuninni í Rauðubjargahúsinu, nýjum vélum í frystihúsið og niðurlagningaverksmiðjunni breytt í niðursuðuverksmiðju. Á fundinum var rætt um þær miklu framfarir sem fælust í skipakaupunum og fjárfestingunum í vinnslustöðvunum og ríkti mikil bjartsýni hvað varðaði framtíðarstarfsemi fyrirtækisins.

Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að fyrsti skuttogari fyrirtækisins, Barði, yrði endurnýjaður. Fram kom að unnið hefði verið að því að fá leyfi og nauðsynlega fyrirgreiðslu til endurnýjunar á skipinu en það hefði gengið erfiðlega. Lögð var áhersla á að Barði væri mikið happa- og aflaskip en hann hefði ekki nýtísku útbúnað til geymslu á fiski og því væri óhjákvæmilegt að hann kæmi með lakara hráefni að landi en þau skip sem best væru útbúin.

Á fundinum var sérstaklega fjallað um hvernig skuttogararnir höfðu gjörbreytt rekstrarhorfum fyrirtækisins, bætt hag sjómanna og aukið allt öryggi fiskvinnslufólks. Til fiskvinnslustöðvarinnar bærist nú nægilegt og gott hráefni allt árið um kring. Fram kom að hásetahlutur á Barða á árinu 1973 hefði verið rúmlega 1,3 milljónir og liðlega 1 milljón á Bjarti sem hóf veiðar í marsmánuði. Þá var upplýst að hástahlutur á loðnu- og kolmunnaveiðiskipinu Berki, sem hóf veiðar í febrúar, hefði verið rúmleg 1,2 milljónir króna. Sérstaklega var tekið fram að hásetahluturinn miðaðist við að háseti hefði verið á skipunum allt árið en staðreyndin væri sú að sjómenn væru farnir að taka sér frí af og til og gerðu það í miklu ríkari mæli en áður. Einnig var greint frá því að á árinu 1973 hefðu verið framleidd 1.969 tonn af freðfiski og 629 tonn af saltfiski.

Fram kom að það sem af væri árinu 1974 hefði Bjartur fiskað 2.686 tonn (hásetahlutur tæplega 1,7 milljón), Barði 2.562 tonn (hásetahlutur rúmlega 1,4 milljón) og Börkur 14.375 tonn (hásetahlutur tæplega 1,7 milljón). Þessar tölur þóttu afar jákvæðar og var þeim vel fagnað.

Í ræðu sinni á fundinum gat Ólafur Gunnarsson framkvæmdastjóri þess að þrátt fyrir verðfall á afurðum og sölutregðu væri enginn barlómur í Síldarvinnslumönnum og gerðu þeir ráð fyrir „tekjuhallalausum rekstri“ á árinu 1974.

SVN snjoflodid_1974_03

Þegar fundi lauk gengu menn bjartsýnir af fundarstað en sú bjartsýni hvarf eins og dögg fyrir sólu tveimur og hálfum mánuði síðar. Hinn 20. desember 1974 féllu tvö snjóflóð í Neskaupstað og sópuðu með sér öllu sem á vegi þeirra varð. Þau skyldu eftir sig dauða og tortímingu. Tólf manns létust í flóðunum, þar af sjö fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Helstu atvinnufyrirtæki bæjarins eyðilögðust eða stórskemmdust og má þar nefna að fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar gjöreyðilagðist og fiskvinnslustöð fyrirtækisins stórskemmdist. Stjórnvöld hétu því að bæta Norðfirðingum skaðann af þessum hrikalegu náttúruhamförum en reyndin var sú að skaðinn var einungis bættur að hluta. Í hönd fór endurreisnartími en það tók Síldarvinnsluna langan tíma að jafna sig á afleiðingum snjóflóðanna.

 

 

Deila: