First Water lýkur 12,3 milljarða fjármögnun

Deila:

„Hlutafjáraukningu First Water hf., sem áður hét Landeldi hf. og vinnur að uppbyggingu sjálfbærs laxeldis á landi í Þorlákshöfn, hefur lokið fjármögnun að andvirði 82 milljóna evra, eða um 12,3 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.“

Þar segir að Stoðir sé áfram stærsti hluthafi First Water. Framtakssjóðurinn Horn IV ásamt breiðum hópi innlendra og erlendra fjáfesta á borð við lífeyrissjóði og einkafjárfesta komi nýir að félaginu. „Hlutafjárkaup að fjárhæð um 2,5 milljarðar er háð samþykki hjá stjórn kaupenda. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans annaðist umsjón hlutafjáraukningarinnar.“

Fram kemur að fyrsti áfangi landeldisstöðvar First Water sé þar með tryggður. Framleiðslugeta fyrsta áfanga verður um 8 þúsund tonn af laxi á ári en áætlanir félagsins miða við að heildarframleiðsla verði að lokum um 50 þúsund tonn og að uppbyggingu verði lokið árið 2028. Áformað er að skrá First Water á hlutabréfamarkað 2025 og sækja samhliða skráningu aukið fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar.

Félagið, sem til skamms tíma gekk undir nafninu Landeldi hf., hefur tekið upp nýtt heiti; „First Water – Salmon from Iceland”. Nafnið sækir uppruna sinn í gæðaflokkun gimsteina, en tærasti flokkur gimsteina kallast „first water”, líkt og hið tærasta vatn. Með nafninu er vísað til þeirra miklu vatnsgæða sem landeldisstöð First Water býr að í Þorlákshöfn, bæði af hendi náttúrunnar og fyrir tilstuðlan einstaks tæknibúnaðar First Water. Sú staðreynd að nær öll framleiðsla félagsins verður seld erlendis skýrir að enskt nafn hafi orðið fyrir valinu.

Haft er eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra First Water að búið sé að afhenda fyrstu afurðir fyrirtækisins. „Viðbrögð kaupenda og neytenda voru framar vonum okkar og það er ljóst að markaðurinn kallar eftir gæðahráefni á borð við okkar, þar sem hreinleiki og sjálfbærni framleiðslunnar er með því besta sem þekkist. Loks erum við að ýta úr vör nýju heiti félagsins og vörumerki; First Water – Salmon from Iceland. Nafnið undirstrikar kjarna málsins, hin óviðjafnanlegu vatnsgæði sem laxinn okkar dafnar vel í, og mun nýtast okkur vel á erlendum mörkuðum. Það er því full ástæða til bjartsýni og við höldum ótrauð áfram uppbyggingu umhverfisvæns og sjálfbærs laxeldis á landi.“

Deila: