Rík hefð fyrir neyslu á loðnu í Japan

Deila:

Útflutning loðnuafurða frá Íslandi til Japan má rekja aftur til sjöunda áratugs síðustu aldar og frá um 1970 hefur Japansmarkaður verið einn sá mikilvægasti fyrir frysta kvenloðnu og loðnuhrogn. Neysla loðnuafurða í Japan byggir á ríkri hefð enda hafa Japanar lengi veitt uppsjávarfisktegund sem þar í landi heitir shishamo og svipar mjög til loðnunnar. Það var einmitt niðursveifla í þeim veiðum í Japan upp úr 1960 sem varð til þess að byrjað var að kaupa loðnuafurðir frá Íslandi. Shishamo er veidd á Hokkaido svæðinu í Norður-Japan og veiðarnar hafa verið mjög sveiflukenndar síðustu áratugi og jafnvel er talað um að í fyrsta sinn í áratugi þurfi að stöðva þær veiðar, að minnsta kosti þar til stofninn nái sér upp á nýjan leik.

Söluskrifstofa Icelandic í Tókýó er þungamiðja í markaðs- og sölustarfi fyrirtækisins á loðnuafurðum í Japan og Asíulöndum og ræddi Ægir við þau Agnesi Guðmundsdóttur, markaðsstjóra og Taro Miyazaki, sölustjóra um afurðamarkaðinn í Japan, um neysluhefðir á loðnu og helstu tækifæri á þessum mörkuðum.

„Loðna er vel þekkt matvara hjá okkur hér í Japan sem shishamo. Loðna heitir því þessu sama nafni, hvort heldur er um að ræða honshishamo frá Hokkaido eða innflutta loðnu,“ segir Miyazaki sem býr að langri reynslu í sölu á íslenskri loðnu í Japan. Hann þekkir vel til Íslands og kemur reglulega hingað til lands til að fylgjast með frystingu afurðanna fyrir Japansmarkað og heimsækja framleiðendur. Miyazaki segir að auk þess að kaupa frysta loðnu frá Íslandi þá sé einnig flutt inn loðna frá Noregi og Kanada, ef afurðaframleiðsla á Íslandi dugi ekki til.

Framboð frá Kanada er hins vegar mjög lítið, auk þess sem veiðin þar er að sumarlagi og það gerir að verkum að erfitt er að ná þeim gæðum sem við sækjumst eftir og við fáum í íslensku loðnunni. Framleiðslan frá Íslandi er okkur því afar mikilvæg,“ segir Miyazaki.

Stærstur hluti frystu loðnunnar fyrir Japansmarkað er hrognafull kvenloðna. Algengast er að loðnan sé þurrkuð eftir uppþýðingu þegar afurðirnar koma til Japan, þó ekki fullþurrkuð, og síðan grilluð. Það tíðkast líka að marinera loðnuna í soyjasósu, pönnusteikja eða
djúpsteikja en einnig getur hún verið hluti af öðrum réttum. Miyazaki segir þennan mat reglulega á borðum japanskra heimila og einnig sé hún á matseðlum veitingahúsa. „Að stærstum hluta er neysla á loðnu hér í Japan þó inni á heimilunum en þetta er líka vara sem skólamötuneyti nota mikið, svo dæmi séu tekin,“ segir Miyazaki og Agnes bætir við að þessi fiskafurð sé augljóslega mjög samofin japanskri neyslumenningu. Agnes hefur sjálf búið með fjölskyldu sinni í Tókýó síðan í febrúar á þessu ári. „Ég upplifi þetta þannig að neysla á loðnu sé eitthvað sem fólk hefur alist upp við og ung börn venjast á að borða hana. Foreldrar fara að kynna loðnu fyrir börnum sínum upp úr þriggja ára aldri en fólk talar um að þar sem hún er borðuð heil þá er hún mjög kalsíumrík fæða, góð fyrir beinabygginguna og vöxt barna og unglinga. Þannig er horft á loðnuna sem hluta af grunnnæringu,“ segir Agnes.

Nánar er rætt við Agnesi í nýjum Ægi.

Á myndinni eru Agnes Guðmundsdóttir og Taro Miyazaki á skrifstofu Iclandic í Tókýó. 

Deila: