Kerecis fær Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018

Deila:

Fyrirtækið Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2018 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í gær. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Kerecis er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun fjölmargra vara sem tengjast húð- og vefjaviðgerðum. Meginstefið í starfsemi fyrirtækisins er hagnýting á náttúrulegum efnum sem styðja við endursköpun húðar og líkamsvefja. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði og hóf rekstur fyrir átta árum.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: Kerecis hefur leitt öflugt nýsköpunarstarf sem tengir saman nýja notkunarmöguleika á sjávarafurðum í heilbrigðistækni. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við lækna, fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarið hefur fyrirtækið náð góðum árangri á markaði vegna sérstöðu afurða fyrirtækisins, enda hefur Kerecis einkaleyfavarið tækni sína í yfir 50 löndum. Fyrirtækið hefur fengið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum og árið 2017 hlaut fyrirtækið Vaxtarsprota ársins, sem það nýsköpunarfyrirtæki sem óx hraðast á Íslandi. Samhliða aukinni markaðssetningu hefur störfum hjá fyrirtækinu fjölgað hratt og þar starfa nú yfir 50 manns við þróun, framleiðslu og sölu.

 

Deila: