Heiðveigu vikið úr Sjómannafélagi Íslands

Deila:

Heiðveigu Maríu Einarsdóttur, sem hugðist bjóða sig fram til embættis formanns Sjómannafélags Íslands hefur verið vikið úr félaginu. Hún fékk í dag sent bréf þess efnis. Hún ætlar að skoða réttarstöðu sína í málinu. Frá þessu er sagt á ruv.is

„Ég var bara orðlaus en átti þó von á þessu. Ég skynjaði að það ætti að beita öllum ráðum til að ég gæti ekki boðið mig fram.“ Heiðveig tilkynnti um framboð sitt í byrjun þessa mánaðar. Stuttu síðar voru þær upplýsingar settar á vef félagsins að frambjóðendur þurfi að hafa verið félagsmenn í að minnsta kosti þrjú ár til að geta boðið sig fram. Hún hafði ekki verið félagsmaður svo lengi.

„Ég læt ekki bjóða mér upp á svona og tel að þeir hafi ekki rökstutt það hvað ég eigi að hafa gert. Bara að ég hafi skaðað félagið. Síðan í síðustu viku hef ég ítrekað beðið um fund með lögmanni félagsins,“ segir Heiðveig sem er bæði lögfræðingur og sjómaður og er að skoða réttarstöðu sína.

Fjórir félagsmenn Sjómannafélagsins óskuðu á dögunum eftir því að stjórn eða trúnaðarmannaráð myndi víkja henni úr félaginu, að því er segir í bréfinu sem hún fékk sent í dag. Þar segir jafn framt að sú tillaga hafi verið samþykkt á fundi trúnaðarmannaráðsins 24. október með 18 atkvæðum af 23. Fjórir voru andvígir og einn sat hjá.

Í erindi sínu til Sjómannafélagsins segja fjórmenningarnir að undanfarnar vikur hafi Heiðveig farið fram gegn félaginu og starfsmönnum þess með órökstuddum ásökunum um að hafa með brotið gegn félaginu og/eða hagsmunum þess á aðalfundi þess í desember síðastliðnum. Enginn fótur sé fyrir þeim  ásökunum, segir í bréfi þeirra.

 

Deila: