Kolmunaveiðin eins og í ævintýri

Deila:

Kolmunnaskipin halda áfram að koma með fullfermi af hráefni til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði og vinnslan gengur afar vel. Frá þessu greinir á vef Síldarvinnslunnar.

Fram kemur að lokið hafi verið við að landa fullfermi úr Hákoni EA á Seyðisfirði í gær og í morgun var lokið við að landa rúmlega 3.200 tonnum úr Berki NK í Neskaupstað. Beitir NK er síðan kominn að landi með rúm 3.000 tonn og mun landa á Seyðisfirði á morgun.

Í fréttinni er rætt við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki:

„Það er ekki hægt að vera annað en sáttur. Staðreyndin er sú að kolmunnaveiðin hefur verið ævintýri líkust að undanförnu og reyndar allt þetta ár. Ég hef aldrei áður upplifað slíka veiði. Það virðist einfaldlega vera miklu meira af fiski en áður og það lætur nærri að að veiðin hafi verið 100 tonn á tímann. Í þessum túr fengum við þessi 3.200 tonn í sex holum. Oft hefur veiðin á þessum slóðum byrjað af nokkrum krafti en síðan hefur hún fjarað út. Núna helst aftur á móti þessi góða veiði og ekkert lát á henni. Við höfum að undanförnu alltaf verið að veiða á sama svæðinu og það kemur sífellt meira af fiski inn á það. Veiðarnar hafa farið fram á hinu svonefnda Gráa svæði og norður að svonefndri skiljulínu. Það sem einkennir veiðarnar er mikill afli á skömmum tíma og frábært hráefni fyrir verksmiðjurnar. Auðvitað gengur hratt á kvótann þegar svona fiskast,” segir Hjörvar.

Deila: