Leggja til 10 daga á mánuði

Deila:

„Við höfum ekki lagt til hliðar kröfu okkar um 48 veiðidaga á fjögurra mánaða strandveiðitímabili en þetta eru viðbrögð við því að strandveiðarnar hafa verið stöðvaðar sífellt fyrr síðustu sumur. Í fyrra keyrði þetta um þverbak þegar veiðarnar voru stöðvaðar þann 11. júlí og miðað við fiskgengd á grunnslóð að undanförnu og óbreyttan fjölda báta á veiðunum í sumar þá má reikna með að við munum sjá eitthvað svipað uppi á teningnum í sumar,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda um komandi strandveiðitímabil. Reglugerð um fyrirkomulag strandveiða 2024 er nánast óbreytt frá síðasta sumri.

Færri dagar í mánuði en veitt út ágústmánuð

Samkvæmt reglugerð um strandveiðar sumarsins 2024 stendur veiðitímabilið frá 2. maí til loka ágústmánaðar og sem fyrr verður hverjum bát heimilt að stunda strandveiðar 12 veiðidaga innan hvers mánaðar á því tímabili. Miðað er við 10 þúsund tonna heildarafla af þorski á strandveiðitímabilinu líkt og í fyrra en til að bregðast við fyrrnefndri þróun í stöðvun veiðanna hefur LS lagt til við matvælaráðherra að sú breyting verði gerð á reglugerðinni að veiðidagar verði 10 í stað 12 gegn því að veiðar verði ekki stöðvaðar. „Þetta er tillaga sem við settum líka fram fyrir strandveiðitímabilið 2023 og teljum í ljósi reynslunnar enn frekar þörf á núna,“ segir Örn. Ljóst sé að þegar strandveiðitímabilið fái ekki að standa lengur en í rúmlega helming veiðitímabilsins þá sé ekki verið að ná upphaflegum markmiðum með þessu veiðikerfi.

Markmiðið að auka jafnræði milli svæða

„Ein leiðin í þessari stöðu er vissulega sú að heildarafli í þorski á strandveiðum verði einfaldlega aukinn en verði sú leið ekki farin þá teljum við besta kostinn að fækka dögunum úr 12 í 10 en á móti verði veiðarnar ekki stöðvaðar líkt og nú er gert. Áhrifin yrðu þau að afli á þeim svæðum sem mest er veiðin framan af sumri yrði minni en á hinn bóginn myndi þetta tryggja jafnræði í strandveiðunum milli landshluta.

Nánar er fjallað um málið í nýútkomn tölublaði Ægis.

Deila: