Draumurinn að byggja upp öflugri útgerð

Deila:

„Draumurinn er að byggja upp öfluga starfsemi hér í Gímsey, kaupa stærri bát og skapa vinnu fyrir nokkra menn í kringum útgerðina. Líkurnar á að sá draumur rætist eru þó því miður litlar,“ segir Bjarni Reykjalín Magnússon, 26 ára gamall Grímseyingur. Hann keypti Sómabát fyrir fjórum árum og gerir hann einkum út á strandveiðar frá Grímsey. Stærsta hindrunin og það sem kemur í veg fyrir að draumur um uppbyggingu nái að rætast er skortur á kvóta.

Kvótaleysið stærsta hindrunin

„Kvótaleysið gerir að verkum að ég næ ekki að róa eins mikið og ég vildi,“ segir hann. Hann verður því að láta strandveiðarnar að mestu nægja. Þær hafa staðið yfir síðustu vikur og gengið ágætlega í heildina. Veiði hefur verið þokkaleg en vissulega hafa nokkrir bræludagar í mánuðinum sett strik í reikninginn. Grímsey liggur vel við góðum fiskimiðum og ekki þarf að róa langt til að komast í góðan afla. „Þetta fer nokkuð vel af stað og við vonum auðvitað að framhaldið verði ekki síðra.“ Bjarni segir að lítið mál væri að gera út frá Grímsey árið um kring, hefðu menn til þess kvóta. „Ég tel að hægt sé að lifa góðu lífi hér ef fyrir hendi væri kvóti og hægt að gera út bróðurpart ársins. Því er ekki að heilsa hvað mig varðar. Ég á engan kvóta. Kem ekki úr útgerðarfjölskyldu og er að byggja minn rekstur upp einn og frá grunni.“

Möguleiki er að leiga kvóta og hefur Bjarni prófað það en segir slíkt í raun glórulaust dæmi. Gera megi ráð fyrir að hafa um 10 til 20 krónur upp úr krafsinu fyrir hvert kíló af þorski, þegar upp er staðið og búið að greiða kostnað við reksturinn. Eitthvað meira fæst fyrir ufsa en sá kvóti er mun ódýrari en þorskkvótinn. „Þetta borgar sig engan veginn. Það fæst ekkert út úr þessu og þegar engar tekjur eru fyrir vinnuna þá er betra að setja bátinn ekki á flot,“ segir hann.

Nýliðastyrkir gætu skipt sköpum

Bjarni segir að staða ungs fólks sem langi að spreyta sig í útgerð sé svipuð og hjá þeim sem hug hafi á að gerast bændur. Erfitt sé að komast inn í þessar atvinnugreinar. Kostnaðurinn sé óheyrilegur og ekki á allra færi, í raun ráði fæstir við slíkt. „Mín skoðun er sú að með því að bjóða upp á nýliðastyrki gætu þeir skipt sköpum fyrir ungt fólk sem vill hasla sér völl í útgerð. Eða þá að veita einhvers konar fyrirgreiðslu á meðan fólk er að koma fótunum undir sig. Mér sýnist hins vegar vilji hjá hinu opnibera ekki vera fyrir hendi og að af slíku verði ekki,“ segir Bjarni og telur að það gæti verið Byggðastofnunar að veita slíka styrki.

Kvóti kosti gríðarlegan pening og harla fáir hafi þær upphæðir sem reiða þurfi fram í handraðanum. „Ég er auðvitað ánægður með að mér tókst að kaupa bát, eldri bátar eru ekki svo dýrir og það er fyrsta skrefið. Síðan þarf að skapa einhverja umgjörð í kringum þetta og hún mætti vera betri,“ segir hann.

Líður vel í Grímsey

Grímsey segir hann að hafi vissulega breyst hin síðari ár og talsverð ferðaþjónusta sé þar, einkum frá vori og fram eftir hausti. „Sjávarútvegurinn verður hins vegar alltaf grunnurinn fyrir heilsárs búsetu í eyjunni. Það er gott að hafa meira með og mjög gaman að sjá hvað eyjan er vinsæl meðal ferðamanna,“ segir hann. Einungis 25 manns bjuggu í Grímsey á liðnum vetri en mikil fjölgun verður jafnan á vorin þegar ferðaþjónusta fer í gang sem og strandveiði sem talsvert er stunduð frá Grímsey. Þrír til fjórir bátar eru gerðir út frá Grímsey allt árið og hefur þeim fækkað með árunum af ýmsum ástæðum, m.a. hækkandi aldri. Einn sjómaður á svipuðum aldri og Bjarni hætti með sína útgerð nýverið, enda óheyrilega mikil vinna að baki og tekjur litlar.

Náði sér eftir vinnuslys

„Ég hef áhuga á að búa hér áfram. Ég er fæddur hér og uppalinn og líður vel hér,“ segir hann en með honum býr kærastan, Drífa Hrund Ríkarðsdóttir frá Selfossi. Hún rær af og til með Bjarna, sem einnig hefur komið sér upp vinnuvélum og gerir þær út m.a. í sjómokstur og fleiri verkefni til að hafa meðfram útgerðinni. „Til að búa hér til framtíðar þurfa að vera fyrir hendi atvinnutækifæri í sjávarútvegi yfir allt árið. Það eru þau sem skapa grunn að heilsársbúsetu í eyjunni,“ segir hann er Bjarni hefur þrátt fyrir ungan aldur reynt að ekki er sjálfgefið að búa við góða heilsu. Hann lenti í slæmu vinnuslysi á Akureyri árið 2017 sem varð honum mikið áfall.

„Það er mjög erfitt þegar fótunum er kippt undan manni á þessum aldri,“ segir hann en slysið varð þegar hann var 18 ára gamall. „Þarna áttu bestu árin að vera björt og fögur fram undan en tíminn fór í að ná sér upp eftir slysið, stunda endurhæfingu á Reykjalundi, peningaleysi, þunglyndi. Þetta var sársaukafullur tími. En sem betur fer fékk ég góða hjálp og lærði að lifa með þessu og tel mig núna vera á góðum stað í lífinu,“ segir Bjarni.

Viðtalið birtist fyrst í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: