Veiðin glæddist skyndilega í Smugunni

Deila:

Eftir býsna mikla leit í Smugunni og lítil aflabrögð brast skyndilega á með hörku makrílveið síðastliðinn föstudag. Frá þessu greinir á vef Síldarvinnslunnar. Þar eiga skip Samherja og Síldarvinnslunnar í veiðisamstarfi. Afla var dælt í Barða NK, 1.400 tonnum, og hélt hann af stað til Íslands. Beitir NK lagði af stað til Álasunds í Noregi með 840 tonn.

Þegar þessi skip voru orðin full hófst vinna við að dæla afla í Vilhelm Þorsteinsson. Á meðan þetta gekk á glæddist makrílveiði einnig í íslenskum sjó.

Rætt er við Þorkel Pétursson, skipstjóra á Barða, í fréttinni.

„Til að byrja með var mikið leitað með litlum árangri. Síðan brast á hörkuveiði. Fiskurinn þétti sig skyndilega þar sem við vorum í Smugunni og það merkilega er að það sama gerðist innan íslensku lögsögunnar í um 300 mílna fjarlægð frá okkur. Þegar tók að veiðast kom í reyndinni miklu meira í veiðarfærin en menn gerðu sér grein fyrir þannig að fyrstu holin voru heldur stærri en menn vildu. Frá miðunum í Smugunni til Neskaupstaðar er um 450 mílna sigling þannig að þetta eru langar vegalengdir. Þá má geta þess að nú höfum við verið úti í 13 daga og verðum búnir að fara 2.500 mílur í túrnum þegar við komum til löndunar. Þá er allt með talið, sigling á miðin, sigling til löndunar, leit og veiðar. En hér um borð eru menn býsna hressir, veiðin gekk afar vel undir lokin og það virðist vera mikið af fiski. Það er eiginlega ekki hægt að biðja um meira,” segir Þorkell.

Deila: