Afmælistertur til heiðurs sjötugum Kristjáni

Deila:

Áhafnir allra skipa Samherja gæddu sér á dýrindis afmælistertum í tilefni þess að Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja fagnar í dag 70 ára afmæli. Frá þessu greinir á vef Samherja.

Þar eru birtar myndir frá kræsingum og áhöfnum nokkurra skipa Samherja. Rifjað er upp að Kristján sé einn af stofenendum Samherja og hann hafi alla tíð verið einn af helstu stjórnendum félagsins og stýrt útgerðarsviði þess.

Kokkar skipanna skreyttu afmælisterturnar að sögn með sínum hætti, afmælisbarninu til heiðurs og fram kemur að skipstjórarnir hafi sent honum afmæliskveðjur frá áhöfnum. Sömu sögu hafi verið að segja um ýmsar starfsstöðvar Samherja, þar var haldið upp á tímamótin.

Í fréttinni er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, að Kristján sé traustur, framsýnn og frjór í hugsun. „Samstarf okkar hefur verið afar farsælt í gegn um tíðina, bæði þegar vel hefur árað og þegar blásið hefur á móti. Það er ekki sjálfgefið að eiga slíka sögu,“ segir Þorsteinn Már.

Deila: