Mikið æti fyrir austan og fallegur fiskur

Deila:

Vestmannaeyjaskipin, Bergur VE og Vestmannaey VE, lönduðu bæði fullfermi í Neskaupstað á sunnudag, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Aflinn var mest þorskur en einnig töluvert af ufsa og dálítið af ýsu. Í fréttinni er rætt við skipstjórana. Jón Valgreirsson á Bergi sagði að fyrst hefði verið veitt á Síðugrunni. „Síðan var kíkt á Ingólfshöfðann en þaðan var strauið tekið austur. Við byrjuðum þar í Hvalbakshallinu en síðan var farið á Örvæntinguna og þar var ágætis veiði. Komið var til hafnar í Neskaupstað á laugardag,” segir Jón.

Vestmannaey hóf einnig veiðar á Síðugrunni en síðan hafi verið tekin tvö holl á Ingólfshöfða. „Þá var tekið eitt hol í Sláturhúsinu og eitt á Lónsbugtinni. Við enduðum síðan í ágætri veiði í Hvalbakshallinu og á Örvæntingu. Það er mikið æti hér fyrir austan, bæði síld og kolmunni. Fiskurinn er í ætinu og þetta er fallegasti fiskur,” segir Birgir Þór.

Skipstjórarnir segjast reikna með að fiska mikið fyrir austan land næstu mánuði og þá verði líklega að mestu landað í Neskaupstað. Þó munu bæði skipin landa í Eyjum síðar í þessari viku.

Deila: