Björguðu Bird úr veiðarfærum

Deila:

Björgunarsveitir frá Drangnesi og Hólmavík losuðu á dögunum hnúfubak sem hafði fest sig í veiðarfærum í Steingrímsfirði. Tilkynning barst Matvælastofnun eftir hádegi og var þá talið að hvalurinn væri dauður. Hins vegar staðfestu myndir frá dróna Whale Wise, sem eru við hvalarannsóknir á svæðinu, að dýrið væri enn á lífi.

Að fengnu samþykki matvælaráðherra, sem fer með málefni sjávarspendýra, var ráðist í björgun hvalsins. Viðbragðsteymið „Hvalir í neyð“ var kallað út, en það samanstendur af sérfræðingum og fulltrúum frá Matvælastofnun, Landhelgisgæslunni, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Whale Wise vinnur með Háskóla Íslands að rannsóknum á ummerkjum og örum á hvölum sem hafa flækst í veiðarfærum. Þessi hnúfubakur, nefndur „Bird“ í rannsóknum Whale Wise, er tæplega níu metra langur og hefur sést á svæðinu síðan um miðjan ágúst. Bird hefur einnig sést á Skjálfandaflóa fyrri ár og er talinn vera unghveli, en kyn hans er enn óþekkt.

Eftir að hvalurinn hafði verið losaður úr veiðarfærunum synti hann kraftalega í átt að hafinu og út á Húnaflóa.

Deila: