Afli og aflaverðmæti enn lágt í Færeyjum

Deila:

Landaður afli og aflaverðmæti í Færeyjum er enn lágt og hefur verið svo undanfarin ár. Betri aflaár voru frá aldamótum fram til 2007. Að meðaltali var aflinn þá ríflega 125.000 tonn á ári. Eftir 2007 hefur fiskaflinn verið að meðaltali 75.000 tonn. Í fyrra varð aflinn 75.000 tonn, sem er litlu meira en árið 2015 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Færeyja.

Í þessum tölum eru landaður ferskur fiskur, annar en uppsjávarfiskur, af Færeyjamiðum, Íslandsmiðum og Flæmska hattinum og eitthvað af sjófrystum fiski.

Afli og aflaverðmæti fylgjast ekki alltaf að og þar ræður mestu verð á fiski upp úr sjó. Aflaverðmætið hefur eins og aflinn fallið síðustu árin. Á tímabilinu 2000 til 2007 var verðmætið ríflega 20 milljarðar íslenskra króna á ári að meðaltali. Síðustu fimm árin hefur aflaverðmætið verið 12,6 milljarðar að meðaltali. Í fyrra var það 15 milljarðar íslenskra króna, sem er 5% meira en árið 2015.

Færeyskar landanir verðmæti

Litlu meira af ufsa veiddist í fyrra en árið áður, eða 1.500 tonnum meira, og alls um 24.000 tonn. Þrátt fyrir að aflinn hafi aukist um 6% dróst verðmæti ufsaaflans saman um 11%. Á árunum 2005 til 2010 var ufsaaflinn að meðaltali ríflega 53.000 tonn.

Síðustu árin hefur verið lítið um þorsk og löndun aðeins um 10.000 tonn að meðaltali síðustu 10 árin. Í fyrra varð aflinn reyndar 12.000 tonn eða 600 tonnum meiri en 2015. Það er aukning um 6% en verðmætið jókst um 12% og skýrist það af hærra fiskverði í fyrra en árið áður. Þessi afli er þó lítill borið saman við aflaárin 1996 til 2005. Þá var þorskafli tvö- og þrefalt meiri en nú.

Ýsuaflinn í fyrra varð 300 tonnum meiri en árið áður. Aflinn varð aðeins 3.800 tonn, en meðaltal áranna 2001 til 2007 var 20.000 tonn á ári.

Færeyskar landanir

Grálúðan verður stöðugt mikilvægari fyrir fiskveiðar Færeyinga. Frá árinu 2010 hefur aflinn þrefaldast og á sama tímabili hefur aflaverðmæti hennar farið úr 570 milljónum í 2,7 milljarða króna. Það er vöxtur um 370%

 

Deila: