Íbúafjölgun þökk sé fiskeldinu
Jákvæð áhrif af uppbyggingunni í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum hafa komið glögglega í ljós. Í stað stöðugrar áralangrar fólksfækkunar hefur íbúum fjölgað síðustu árin í kjölfar þeirrar miklu uppbyggingar í fiskeldi sem orðið hefur í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Á sama tíma hefur verið fólksfækkun annars staðar á Vestfjörðum, þar sem ekki nýtur fiskeldisuppbyggingar; ennþá.
Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar Atvinnutekjur 2008 – 2015 eftir atvinnugreinum og svæðum og er farið yfir þessa þróun á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
Frá árinu 1994 til 2011 fækkaði íbúum á Bíldudal um tæp 45%, á Patreksfirði um tæp 27% en minnst á Tálknafirði um tæp 17%. Á sama tíma fækkaði íbúum hægar á norðanverðum Vestfjörðum, td. um 16% á Ísafirði. Þetta kemur fram í samantekt Byggðastofnunar.
Nú hefur þetta snúist við. Á árunum 2008 til 2015 fjölgaði íbúum í Vesturbyggð um 9%, en íbúum í Ísafjarðarbæ fækkaði um 8,9%. Alls fækkaði á Vestfjörðum um 4,9%. Þessi viðsnúningur á sunnanverðum Vestfjörðum á sér stað vegna uppbyggingarinnar í fiskeldi.
Ljóst má vera að án tilkomu fiskeldisins, hefði íbúaþróunin á Vestfjörðum í heild orðið enn neikvæðari en raunin varð. Þannig má sjá að fyrir daga fiskeldisins fækkaði íbúum hvað mest á sunnanverðum Vestfjörðum. Því má ætla að ef fiskeldið hefði ekki komið til, hefði íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum fækkað amk. hlutfallslega jafn mikið og og raunin varð tam. í Ísafjarðarbæ. Þannig er líklegt, miðað við þróunina fram að fiskeldisuppbyggingunni, hefði á sunnanverðum Vestfjörðum orðið um 10% fækkun. En raunin – þökk sé fiskeldinu – varð nær 10% fjölgun á svæðinu.