Makríllinn stór, feitur og fallegur

Deila:

Vel hefur gengið í makrílvinnslunni hjá HB Granda á Vopnafirði í sumar að nú styttist í að kvóta ársins verði náð. Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, hefur makríllinn verið stór og góður og meðalvigtin í sumar hefur verið 450 til 470 grömm.

Víkingur AK var að koma til hafnar á Vopnafirði upp úr hádeginu í gær og Albert Sveinsson skipstjóri segist í samtali á heimasíðu HB Granda ánægður með veiðiferðina.

,,Við erum með rúm 1.100 tonn og megnið af aflanum fékkst í aðeins þremur holum. Makríllinn hefur stækkað eftir því sem liðið hefur á sumarið og fiskurinn í fyrsta holinu okkar var að jafnaði rúmlega 500 gramma þungur. Síðan lækkaði meðalvigtin örlítið og annar afli var fiskur rétt undir 500 grömmum að jafnaði,“ segir Albert en hann segir að það hafi staðið á endum að sleppa við bræluna, sem nú er komin á veiðisvæðinu, á meðan veiðum stóð.

,,Það var reyndar bræla alla heimsiglinguna og mér sýnist að spáin sé ekki góð næstu daga. Hvað varðar framhald veiða þá er það makríll áfram og í framhaldinu tekur norsk-íslenska síldin við. Bjarni Ólafsson AK er nú að leita að síld og vonandi gengur það vel,“ sagði Albert Sveinsson.

Deila: