Það á eftir að koma heilmikil loðna

Deila:

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær morgun með rúmlega 2.200 tonn af loðnu. Hluti af aflanum fer til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og hófst vinnsla strax. Grænlenska skipið Polar Amaroq kom einnig til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1.650 tonn, þar af eru 650 tonn fryst.

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að ekki hafi verið mikið að sjá af loðnu. „Það var ekki stór bletturinn sem skipin voru að toga á,“ sagði hann. Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq, tók undir með Sturlu og sagði að enn væri ekki mikið að sjá. „Mér líst hins vegar ekki illa á vertíðina. Það á eftir að koma heilmikil loðna. Við vorum í vikutúr en vorum einungis tvo daga á veiðum. Þrír daganna fóru í loðnuleit í samstarfi við Hafrannsóknastofnun. Við munum fara í frekari leit eftir löndun og það mun koma maður um borð til okkar frá Hafró áður en við leggjum úr höfn,“ sagði Geir.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar, skipstjóra á Berki NK til að fá fréttir af miðunum. „Við erum komnir með 1.700 tonn. Það var lítið að fá í gær og ekkert í nótt. Við leituðum í alla nótt og köstuðum ekki fyrr en nú rétt fyrir hádegi og nú er töluvert að sjá. Það eru allir bátarnir hérna, einir 6 talsins, búnir að kasta. Við erum núna norður af Langanesi og komnir að trolllínunni. Við megum ekki fara vestar til að veiða með trollinu,“ sagði Hálfdan.

Á myndinni er Beitir NK að loðnuveiðum norðaustur af Langanesi. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.

Deila: