Slippurinn Akureyri hannar lestarkerfi í nýtt skip Vinnslustöðvarinnar

Deila:

Á sjávarútvegssýningunni í Barcelona í síðustu viku var undirritaður samningur um hönnun Slippsins Akureyri á sjálfvirku flutningskerfi í lest nýs togskips Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Skipið verður hannað af verkfræðistofunni Skipasýn og verður það 29 metra langt.

Lestarkerfið er ný hönnun í framleiðslu Slippsins Akureyri á vinnslubúnaði undir merkjum DNG by Slippurinn. Kerfið í skipi Vinnslustöðvarinnar verður algjörlega sjálfvirkt og verða í því 250-280 ker. Auk lestarkerfisins framleiðir Slippurinn Akureyri vinnslubúnað í skipið.

„Samstarfið við Vinnslustöðina í Vestmanneyjum og Skipasýn hefur verið mjög gott og það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur að koma að verkefninu svona á fyrstu stigum hönnunar. Samningurinn er rökrétt framhald af þeirri forvinnu sem hefur átt sér stað í verkefninu undanfarin misseri,“ segir Magnús Blöndal sviðsstjóri Slippsins Akureyri í tilkynningu í tilefni af samingnum.


Fulltrúar Slippsins Akureyri og  Vinnslustöðvarinnar handsala samninginn  á sjávarútvegssýningunni í Barcelona. Frá vinstri: Ásþór Sigurgeirsson, Sverrir Haraldsson, Magnús Blöndal og Sindri Viðarsson.


Sjálfvirkt lestarkerfi fyrir ferskfiskskip frá DNG by Slippurinn. Kerfinu er ætlað að stuðla að bestu mögulegu hráefnismeðferð. Auk kerfisins verður vinnslubúnaður í skipinu einnig frá DNG by Slippurinn.

Deila: