280 milljóna aflaverðmæti

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærmorgun að loknum þrjátíu daga túr. Afli skipsins er 742 tonn upp úr sjó að verðmæti 280 milljónir króna. Unninn afli telur rúmlega 21 þúsund kassa. Helstu tegundir sem fengust voru ýsa, gulllax, gullkarfi, ufsi og þorskur.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við skipstjórann, Bjarna Ólaf Hjálmarsson sem segir að skipið hafi verið að veiðum frá Austfjarðamiðum og suður með landinu alveg norður á Hala. Því hafi verið víða varið og veðrið hafi verið misjafnt.

„Fyrstu tvær vikurnar einkenndust af brælum en síðan breyttist veðrið og var ágætt eftir það. Menn eru ágætlega sáttir við túrinn en staðreyndin er sú að fiskurinn heldur sig í ríkum mæli innan línu þannig að við, sem þurfum að veiða utan hennar, erum ekki að gera það jafn gott og þau skip sem veiða á grunnslóðinni. Það er okkur ekki hagstætt þegar fiskurinn heldur sig svona grunnt og mann grunar að hér hafi loðnuleysið áhrif,” segir Bjarni Ólafur.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til grálúðuveiða í kvöld.

Deila: