Makrílvertíðin komin á fullt fyrir austan

Deila:

Makrílvinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. laugardag þegar Margrét EA kom þangað með fyrsta farm vertíðarinnar, 840 tonn. Eins og venjulega þurfti að ýmsu að hyggja þegar vinnsla hófst, en vélbúnaður fiskiðjuversins er flókinn og ávallt tekur einhvern tíma til að fá hann til að virka sem skyldi.

Þegar vinnslu úr Margréti lauk var Beitir kominn til hafnar með 860 tonn og hófst vinnsla úr honum í gærmorgun. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, um þessa fyrstu veiðiferð vertíðarinnar. „Það gekk býsna vel að ná aflanum. Við fengum hann í sex stuttum holum, en það er aldrei togað lengur en í þrjá og hálfan til fjóra tíma. Við hófum veiðar við Háfadýpið en enduðum austan við Skaftárdýpi og það er örugglega makríll enn austar. Það bendir allt til þess að töluverður makríll sé á ferðinni en eins og venjulega er veiðiárangur misjafn. Hann blossar upp á tilteknu svæði en svo getur hann horfið þar býsna snögglega. Mér líst bara vel á þessa makrílvertíð, allavega fer hún ágætlega af stað,“ segir Tómas.

Börkur NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær morgun með 600 tonn og tekur Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri undir með Tómasi um að vertíðin fari vel af stað. „Við fengum þennan afla í fjórum holum og það var ekkert mála að fiska. Við hófum veiðarnar vestur í Skaftárdýpi og fylgdum síðan kantinum austur eftir og enduðum í Hornafjarðardýpinu. Fiskurinn virtist vera á fullri ferð austur. Þetta byrjar vel og vonandi verður áframhald á því,“ segir Hálfdan.

Auk makrílskipanna sem landa afla sínum í fiskiðjuverið hófst löndun á frystum makríl úr Hákoni EA í Neskaupstað í gærmorgun. Afli skipsins er 650 tonn.

 

Deila: