Ferðamenn veiða meira en milljón fiska

Deila:

Ferðamenn sem heimsækja Noreg hafa dregið hvorki meira né minna en ríflega eina milljón fiska úr sjó við strendur landsins. Þetta er niðurstaða skýrslna frá skráðum fyrirtækjum í ferðamennsku, sem selja aðgang að veiðum á sjóstöng. Tilkynningarskylda er á veiðum á þorski, ufsa, lúðu, steinbít og karfa.

Yfir þúsund fyrirtæki í ferðamennsku hafa tilkynnt að um 1.150.000 fiskar hafi bitið á krókinn á ferðamönnunum en af þeim fjölda hefur um 37% verið sleppt í sjóinn á ný. Mest veiðist af þorski við norðanvert landið, en meira af ufsa við syðri hlutann. Þannig hafa 581.000 þorskar bitið á agnið og 532.00 ufsar. Af þeim hefur þriðja hverjum þorski og ufsa verið sleppt og 42% af lúðunni.

Líkleg skýring á því hve miklu af fiski er sleppt eftir að hann er dreginn úr sjó, er ákvæði um lágmarkstærð. Smáfiski skal sleppa, sé hann líklegur til að lifa veiðina af.

Ýmist taka ferðamennirnir aflann með sér heim, ísaðan eða frystan, eða neyta hans á staðnum. Hverjum ferðamanni sem veiðir í skráðum veiðiferðum er heimilt að taka 20 kíló af fiskafurðum með sér heim, en annars aðeins 10 kíló.

Deila: