Hækkun á veiðigjaldi

Deila:

„Fyrir Alþingi liggur frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjald. Í athugasemdum frumvarpsins og í kynningum ráðherra hefur verið lögð á það áhersla að hvorki sé verið að hækka né lækka gjaldið. Vafalaust hafa margir skoðun á því hvort það sé kostur eða galli. Það er hins vegar óþarft að takast á um þessa staðhæfingu; hún er röng. Hið rétta er að það er verið að hækka veiðigjaldið. Tveir afgerandi þættir eru óyggjandi staðfesting þess og mikilvægt er að allir átti sig á hvers eðlis þeir eru. Fyrir utan hið augljósa að rétt skuli vera rétt.“

Svo skrifar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á heimasíðu samtakanna. Þar skrifar húnn ennfremur:

„Í sinni einföldustu mynd felst aðferðafræði veiðigjalds í því að taka 33% af afkomu veiða. Afkoman felst í heildartekjum að frádregnum kostnaði (sem myndar svokallaðan reiknistofn). Að því er kostnað varðar er bæði litið til breytilegs og fasts kostnaðar. Í útgerð er breytilegur kostnaður nokkuð augljós, en í honum felst allur kostnaður sem breytist eftir því hve mikið veiðist. Gjöld ýmiss konar sem miðast við veitt magn og falla til við það að veiða fisk og koma með hann að landi eru þannig hluti breytilegs kostnaðar. Má þar meðal annars nefna aflagjald og veiðigjald. Nú bregður hins vegar svo við, að í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins er veiðigjald ekki talið breytilegur kostnaður. Engar skýringar er því miður að finna á þessari grundvallarbreytingu frá fyrri framkvæmd og fordæmalausu skilgreiningu á breytilegum kostnaði. Þegar ráðherra hefur verið inntur svara hefur jafnframt orðið fátt um svör, enda er enga rökrétta skýringu á þessu að finna. Þessum mikilvæga kostnaðarlið hefur einfaldlega verið kippt út til þess að blása upp reiknistofninn – og hækka þannig álagt veiðigjald. Svona vinnubrögð eru óboðleg við smíði vandaðrar löggjafar og sanngjarnrar gjaldtöku.

Föndrað við aflaverðmæti uppsjávarfisks

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að hætt verði að innheimta veiðigjald af fiskvinnslu enda er þar ekki um nýtingu auðlindar að ræða. Sú breyting felur því í sér leiðréttingu á rangri gjaldtöku. Eðli máls samkvæmt hefði mátt ætla að við þessa leiðréttingu hefði lækkun orðið á reiknistofni, þar sem ekki er þá lengur lagt auðlindagjald á fiskvinnslu. Í frumvarpinu bregður hins vegar svo við að bætt er 10% álagi á aflaverðmæti uppsjávarafla, með þeirri skýringu að »fyrirliggjandi gögn um aflaverðmæti botnfiskafla og uppsjávarafla [séu] ekki að öllu leyti sambærileg vegna ólíkra aðstæðna sem uppi eru við bæði veiðar og vinnslu þeirra tegunda sem um ræðir.« Þessi skýring fær ekki staðist.

Hvort sem litið er til botnfiskveiða eða uppsjávarveiða, þá liggur aflaverðmæti fyrir. Í því samhengi má meðal annars benda á að uppsjávarútgerðir senda vikulega ítarlegar upplýsingar um verð til Verðlagsstofu skiptaverðs og sú ríkisstofnun rýnir þær og gætir að því að verð einstakra útgerða víki ekki í verulegum atriðum frá því sem algengast er. Verðlagsstofa kemur þessum upplýsingum síðan áleiðis til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Ekkert er því á huldu í þessum efnum sem réttlætt getur þá aðgerð sem frumvarpið boðar, þ.e. að hækka handvirkt aflaverðmæti uppsjávarútgerða um 10%. Raunar er hér um sérstaklega varhugaverða tillögu að ræða þar sem hún leiðir til þess að hlutfall gjaldsins verður hærra í erfiðu árferði.

Til skýringar má benda á að ef framlegðarhlutfall er 20% verður gjaldhlutfallið 50% af reiknistofni og ef framlegðarhlutfall er 10% verður gjaldhlutfallið 66% af reiknistofni. Verður að telja þetta verulegan ágalla, enda verður fyrirtækjum þá íþyngt enn frekar þegar erfiðlega gengur. Hún fer því þvert gegn markmiði frumvarpsins um að láta veiðigjaldið endurspegla, með betri hætti en gert er í dag, afkomu greinarinnar á hverjum tíma. Líkt og með breytilega kostnaðinn, er eina sannanlega skýring þessarar aðgerðar ekki önnur en sú að blása upp reiknistofninn – og hækka þannig álagt veiðigjald á uppsjávarfisk. Svona vinnubrögð eru óboðleg við smíði vandaðrar löggjafar og sanngjarnrar skattheimtu.

Bellibrögð að baki 33%

Þekki menn ekki þeim mun betur til hljómar það vafalaust ágætlega að 33% af afkomu útgerða séu greidd í formi auðlindagjalds. Sú tala er þó lítt upplýsandi ef menn þekkja ekki af hvaða fjárhæð sú prósenta er tekin. Með frumvarpinu er handvirkt verið að stækka reiknistofn og hækka þannig veiðigjaldið. Um það þarf ekki að deila.

Á þessum tímapunkti er mikilvægt að Alþingi átti sig á forsendum fyrirliggjandi frumvarps og að leitað sé skýringa á þeim sjónhverfingum sem beitt er þegar staðhæft er að hvorki sé verið að hækka né lækka veiðigjald. Sé það raunveruleg ætlun löggjafans að miða veiðigjald við rétta afkomu, þ.e. sannanlegar tekjur og gjöld, þá er ekki unnt að samþykkja óbreytt frumvarp með því fordæmalausa föndri sem þar er viðhaft. Sé það hins vegar vilji meirihluta Alþingis að hækka veiðigjald, og skaða þannig samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs frekar en nú er væri réttara að koma hreint fram og leggja einfaldlega til hækkun á því hlutfalli sem tekið er af raunverulegum tekjum að frádregnum sannanlegum gjöldum.“

Deila: