Stjórnendur styðja Ljósið

Deila:

Sjúkrasjóður Sambands stjórnendafélaga (STF) ásamt aðildarfélögum, færði Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess, peningagjöf á dögunum í tilefni af 80 ára afmæli sambandsins. Um er að ræða 1,2 milljónir króna sem varið verður til reksturs Ljóssins.

„Þessi styrkur Sambands stjórnendafélaga er okkur gífurlega mikilvægur og við þökkum af alhug þann velvilja og stuðning sem í þessu felst. Það er einmitt þessi hugur í garð starfseminnar sem gerir okkur kleift að starfa í þágu krabbameinssjúkra og aðstandenda þeirra. Kærar þakkir til allra þeirra félagsmanna sem starfa innan vébanda stjórnendafélaganna. Ykkar stuðningur er okkar von,“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins.

„Samband stjórnendafélaga, sem áður hét Verkstjórasamband Íslands, fagnaði 80 ára afmæli í apríl sl. og í stað þess að efna til veisluhalda ákvað stjórn sambandsins að veita frekar fjárstyrk til félagasamtaka sem þyrftu suðnings við. Ljósið varð fyrir valinu en þar er unnið ómetanlegt mannræktarstarf sem lengi hefur vakið eftirtekt okkar og aðdáun. Við vonum að þessi styrkur STF verði Ljósinu hvatning til að halda áfram á sömu braut,“ segir Skúli Sigurðsson, forseti Sambands stjórnendafélaga.

Ljósið býður upp á fjölbreytta endurhæfingu með heilbrigðismenntuðu starfsfólki.  Dagskráin, sem er fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra, er viðamikil, t.d. námskeið fyrir nýgreindar konur, fræðslufundir fyrir karlmenn, jógahópar, gönguhópar, líkamsrækt, handverkshópar, nudd, jafningjahópar o.fl. Í Ljósinu er unnið að því að efla líkamlegan og andlegan styrk. Húsnæði Ljóssins að Langholtsvegi 43 í Reykjavík er opið alla virka daga frá kl. 08:30 til 16:00 en auk þess er boðið upp á skipulögð námskeið á kvöldin og á laugardögum.
Myndin er frá afhendingu gjafar Sjúkrasjóðs Sambands stjórnendafélaga, frá vinstri: Jón Ólafur Vilhjálmsson, formaður stjórnar Sjúkrasjóðs, Viðar Þór Ástvaldsson, gjaldkeri stjórnar STF, Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins. Jóhann Baldursson, framkvæmdastjóri STF og Skúli Sigurðsson, forseti STF.

 

 

Deila: