Samningaviðræðum frestað til mánudags
Samningafundi sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lauk nú fyrir stundu og viðræðum verður frestað til mánudags.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segir í samtali við ruv.is tímann fram að því verða nýttan til þess að kynna stöðuna fyrir sjómönnum. „Núna þurfum við að heyra í okkar baklandi, sjómenn,“ segir Vilhjálmur.
Þrjár af fimm kröfum komnar áleiðis
„Það er alveg ljóst að þessi staða er mjög erfið og snúin, þó vissulega hafi okkur miðað áfram í vissum málum. Við lögðum af stað með fimm kröfur og það má eiginlega segja að við séum búin að þoka þremur af þessum fimm kröfum áleiðis en núna er staðan þannig að við erum dálítið upp við vegg og tókum því ákvörðun um að taka okkur smá pásu og heyra í okkar félagsmönnum.“
Vilhjálmur segir að það sé vilji allra að leysa þessa deilu. „Þetta er mjög erfið og snúin deila og ábyrgð samningsaðila er mikil. En við erum í þeirri stöðu að sjómenn hafa sent okkur skýr skilaboð um hvað þarf að gera til að við náum samningi í gegn.“
Aðspurður segist hann ekki geta greint frá því hvað stendur út af borðinu, slíkt sé trúnaðarmál. „Við teljum okkur vera með sanngjarnar og réttlátar kröfur sem útgerðarmenn eiga að geta gengið að.“