Vilja sjá þorskinn lifandi áður en þeir snæða hann

Deila:

Einkennilegar óskir um kaup á sjávarfurðum berast stundum til útflytjenda og samtaka í fiskvinnslu og fiskveiðum. Beiðni um lifandi þorsk frá veitingahúsi í París barst Landssambandi smábátaeigenda nýverið. Axel Helgason greindi frá þessu á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í gær:

„Til Landssambandsins leita ýmsir aðilar í leit að góðu hráefni. Nú í síðustu viku kom í heimsókn til okkar Fransmaður með ósk um að Landssambandið yrði honum innan handar við að útvega lifandi þorsk sem á að flytja til Parísar og bjóða þar nýríkum Asíubúum, sem eru stór hluti ferðamanna þar í borg. Hann sagði að hluti þeirra væri til í að borga háar fjárhæðir fyrir þessa lúxus vöru sem Asíubúarnir virðast vilja sjá lifandi áður en þeir setjast að snæðingi. Þetta hljómar galið og er það með tilliti til umhverfissjónarmiða, því að fljúga þorskinum lifandi til Parísar með því sótspori sem því fylgir, telst seint vænlegt til að auka veg og virðingu fyrir okkar annars umhverfisvænu veiðum,“ sagði Axel.

Deila: