Humar fyrir hátíðir

Deila:

Neysluvenjur yfir jól og áramót breytast stöðugt. Við sem eldri erum vöndumst við lambahrygg, hangikjöt og svið. En þrátt fyrir nokkra íhaldssemi hafa allavega sviðin horfið af jólaborðinu. Veislumaturinn er í raun orðinn ansi fjölbreyttur, en eftir kjöt til dæmis í tvo daga er gott að fá fisk á þriðja degi. Humar nýtur stöðugt meiri vinsælda enda einstakur veislumatur og þrátt fyrir lélegustu humarvertíð frá upphafi, er hægt að fá hann, reyndar á nokkru hærra verði en áður. En jólin eru bara einu sinni á ári og fyrir þá sem það geta leggjum við til netta humarveislu yfir hátíðirnar. Þessi uppskrift er einföld og góð og við mælum með humri yfir hátíðirnar.

Innihald:

5-7 meðalstórir humarhalar í skel, látið matarlystina ráða

1 ½ msk. fersk söxuð steinselja

4-6 hvítlauksrif eftir stærð, marin

1 tsk. dijon sinnep

¼ tsk. salt

ferskur nýmalaður svartur pipar á hnífsoddi

1 ½ msl. ólívuolía

1 ½ msk ferskur sítónusafi

4  msk. ósaltað smjör í bitum

sítrónusneiðar til skreytingar og meðlætis

Aðferð:

Notið eldhússkæri til að klippa rauf í skelina, um hálfan sentímetra að breidd aftur að sporði. Losið holdið með því að þrýsta halanum saman að neðanverðu.  Þrýstið holdinu síðan varlega upp í gegnum raufina og hreinsið görnina úr honum. Látið holdið liggja að mestu leyti ofan á skelinni.

Blandið saman í skál steinselju, hvítlauk, sinnepi, salti, pipar, olíu og sítrónusafa  og hrærið vel saman.

Raðið humrinum með holdið upp í ofnfast mót. Forhitið ofninn í 220°. Penslið humarinn jafnt með maríneringunni og setjið smáklípu af smjöri á hvern hala.  Setjið mótið  með humrinum ofan við miðju í ofninum og grillið í um það bil 10 mínútur. Tíminn fer eftir stærð halanna, en þegar humarinn er ekki glær lengur, er hann tilbúinn. Varist að elda hann of lengi, því þá þornar hann og tapar bragðgæðum.
Þegar humarinn er hæfilega eldaður er gott að hella vökvanum úr mótinu í pott og bæta smávegis af köldu smjöri út í til að gera sósu til að hafa með humrinum.

Okkur finnst nauðsynlegt að hafa hvítlauksbrauð með humrinum. Það má annað hvort kaupa frosið, tilbúið til hitunar, eða smyrja gott heimilisbrauð með blöndu af smjöri og mörðum hvítlauk og grilla það ofarlega í ofninum þannig að það verði hæfilega stökkt. Svo mælum við með salati að eigin vali og kældu hvítvíni, til dæmis góðu Chardonnay.

 

Deila: