Með 17 konum á snyrtilínunni

Deila:

Fyrsta daginn sem maður vikunnar að þessu sinni var að vinna í fiski 15 ára gamall var hann settur á snyrtilínuna þar sem 17 konur ýmist hlógu að honum eða hristu hausinn yfir vinnubrögðunum. Það er ekki hlegið lengur enda er hann orðinn sjávarútvegsfræðingur og framleiðslu- og gæðastjóri hjá Odda hf. á Patreksfirði.

Nafn:

Vignir Fannar Víkingsson.

Hvaðan ertu?

Ég fæddist á Stokkseyri og bjó þar fyrstu fjögur árin en flutti svo til Þorlákshafnar og ólst þar upp.

Fjölskylduhagir?

Er í sambúð með Ingu Ósk Jónsdóttir.

Hvar starfar þú núna?

Ég er framleiðslu- og gæðastjóri Odda á Patreksfirði.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

15 ára gamall í Frostfiski í Þorlákshöfn.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Allt fólkið sem maður kynnist.

En það erfiðasta?

Að eiga við allt þetta fólk.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Fyrsti dagurinn minn í sjávarútveginum var frekar skrýtinn, en ég var sendur upp á línu að snyrta allan daginn. Það voru 17 konur með mér uppi á snyrtilínu sem skiptust á að hlægja og hrista hausinn. Ég var aldrei sendur upp á línu eftir þetta.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir voru nokkrir magnaðir í Frostfiski þegar ég vann þar frá 2013-2017. En ætli Númi Snær Jóhannesson standi ekki upp úr. Hann var kannski ekki alltaf sá afkastamesti uppi á slægingarborðinu en hrikalega mikilvægur fyrir móralinn.

Hver eru áhugamál þín?

Ég hef mjög gaman af fótbolta og „crossfit“. En eftir að ég flutti á Patró þá er ég orðinn meiri áhorfandi heldur en iðkandi. En svo klikkar aldrei að vera með vinum og fjölskyldu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Pizza og Pepsi Max.

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég veit nú ekki með draumafríið en það er alltaf gaman að fara á pub-inn í UK. Bretinn er einfaldur og við náum vel saman.

 

 

Deila: