2.870 útselir í grásleppunet á ári!

Deila:

Umhverfisvottun á grásleppuveiðar var felld niður í byrjun þessa árs vegna áætlaðs meðafla af útsel við veiðarnar. Axel Helgason, formaður LS, ræddi þetta á aðalfundi sambandsins í gær.

„Ástæða niðurfellingarinnar var mat matsmanna vottunarstofunnar að við færum upp fyrir varúðarmörk í meðafla á fjórum tegundum sem koma í netin hjá okkur. Ljóst er að endurskoða þarf ýmislegt í vottunarferlinu og snýr það aðallega að gögnum sem vottunin byggir á. Ein tegundin sem fellir vottunina er útselur, sem telur stofn upp á um 4.200 dýr. En samkvæmt meðaflaskýrslu Hafró sem matsmenn vottunarstofunnar byggja sína endurskoðun á, þá koma um 2.870 útselir í netin hjá okkur á hverju ári. Á hverju ári áttum við að vera að taka um 70% af stofninum í netin hjá okkur og það sér hver maður að þetta gengur á engan hátt upp,“ sagði Axel.

„Það sem við þurfum að velta fyrir okkur, er aðkoma okkar útgerðaraðila að því ferli sem er að ákveða hvort óskað sé eftir vottun eða ekki. Því eins og fyrirkomulagið er í dag, er það einkafyrirtæki sem ákveður að sækja um vottun og það sem eftir kemur höfum við lítið um að segja. Opinberar stofnanir og eftirlitsaðilar taka að sér mikil verkefni, gjaldalaust, til að uppfylla kröfur vottunaraðila og í umræðunni lítur út fyrir að þetta sé til komið vegna kröfu frá útgerðaraðilum,“ sagði Axel.

 

 

Deila: