Fiskistofa enn að skoða aðgerðir gegn umframafla

Deila:

„Fiskistofa hefur reynt að sporna við umframafla með því að birta þá aðila sem fara umfram, einnig með því að leiðrétta þá framkvæmd að umframafli telji til byggðakvóta. Þá hefur stofnunin haft til skoðunar hvort bregðast þurfi við með viðurlögum í tilfellum þar sem augljóst er að afli er það mikið yfir leyfilegum afla að skipstjóra hefði átt að vera ljóst að hann væri að veiða verulega umfram það sem heimilt er.”

Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn um aðgerðir til að sporna við umframafla á strandveiðum. Mörg dæmi eru um að bátar landi ítrekað miklu meira aflamagni en leyfilegt er á strandveiðum. Þar sem sektin pr. kíló nemur meðalverði þorsks þann daginn geta menn haft svolítið upp úr því að landa umfram ef þeir eru í vænum og verðmætum fiski. Framúrkeyrslan dregst frá heildarpotti strandveiða.

„Því miður er það þannig að þegar einhverjir taka meira úr sameiginlegum potti en þeim er heimilt í einni veiðiferð bitnar það á heildinni þar sem aflinn er dreginn frá því aflamagni sem ráðstafað er til strandveiða,” segir í svari Fiskistofu.

„Afli sem veiðist af skipum með strandveiðileyfi telst strandveiðiafli þar sem strandveiðar eru sérstakt kerfi innan fiskveiðistjórnunarkerfisins þar sem ákveðnu aflamagni er ráðstafað til handfæraveiða. Fiskistofa gefur út leyfi til strandveiða á skip að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hverjum bát sem fær leyfi til strandveiða er heimilt að veiða 12 daga í mánuði í maí, júní, júlí og ágúst eða þar til aflamagn endist hvort sem kemur fyrr. Strandveiðibátum er óheimilt að stunda aðrar veiðar á meðan strandveiðileyfi er gilt og því er allur afli sem bátarnir landa talinn vera afli innan strandveiðikerfisins. Til þess að draga úr hvata við það að fara yfir leyfilegt hámark er mælt fyrir um að sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla skuli leggja á aflann en eins og þú bendir réttilega á þá dugar það ekki til að koma í veg fyrir að skip landi umframafla og jafnvel í miklu magni.”

Fimm bátar höfðu fyrstu þrjá daga vertíðarinnar landað meira en einu tonni í róðri. 25 bátar höfðu landað meira en 900 kílóum í róðri. Hámarksafli af þorski er 774 kg. í róðri. Mestur umframafli hefur komið á land á Patreksfirði.

 

Deila: