Bæði framúrskarandi og til fyrirmyndar

Deila:

Samkvæmt mælingum Creditinfo töldust 868 fyrirtæki á Íslandi vera framúrskarandi á árinu 2017. Það munu vera 2,2% þeirra fyrirtækja sem starfa á landinu. Fyrirtækin sem komast á listann yfir framúrskarandi fyrirtæki þurfa að mæta ákveðnum skilyrðum um ábyrgan og arðbæran rekstur. Skilyrðin eru m.a. eftirfarandi: Þurfa að hafa skilað ársreikningi síðastliðin þrjú ár, vera í lánshæfisflokki 1-3, rekstrarhagnaður (ebit) verið jákvæður þrjú ár í röð, ársniðurstaða verið jákvæð þrjú ár í röð, eiginfjárhlutfall 20% eða meira þrjú ár í röð og eignir a.m.k. 90 milljónir kr. árið 2016 og 80 milljónir 2015 og 2014.

„Á lista Creditinfo í ár er Síldarvinnslan í sjöunda sæti í flokki stórra fyrirtækja og hefur færst upp um eitt sæti frá því í fyrra. Þá ber að nefna að á listanum er einnig að finna dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar og má þar nefna G. Skúlason vélaverkstæði í Neskaupstað, Runólf Hallfreðsson ehf. á Akranesi, Fjarðanet hf. og Fóðurverksmiðjuna Laxá hf. á Akureyri,“ segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Þá eru Viðskiptablaðið og Keldan í samstarfi um val á fyrirmyndarfyrirtækjum í rekstri. Fyrr í þessum mánuði lá niðurstaða valsins fyrir. Í heildina komust rúmlega 850 fyrirtæki á lista yfir fyrirmyndarfyrirtæki en það eru um 2% allra fyrirtækja sem starfa á landinu. Til að komast á listann þurftu fyrirtækin að hafa skilað ársreikningi og uppfylla ýmis önnur ströng skilyrði. Tekjur þeirra þurftu til dæmis að vera yfir 30 milljónum króna, eignir yfir 80 milljónum og eiginfjárhlutfall yfir 20%. Byggir listinn á ársreikningum fyrirtækjanna fyrir 2016 en þau eru flokkuð í þrjá stærðarflokka.

Eins og við var að búast var Síldarvinnslan á listanum yfir stór fyrirmyndarfyrirtæki og var þar reyndar í sjötta sæti. Í þeim flokki var Samherji í efsta sætinu og á eftir honum komu Icelandair Group, Félagsbústaðir hf., Marel hf., Össur hf. og síðan Síldarvinnslan. Þá er einnig að finna dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar á listanum yfir fyrirmyndarfyrirtækin. Má þar nefna Fjarðanet hf., Runólf Hallfreðsson ehf., G. Skúlason vélaverkstæði, Fóðurverksmiðjuna Laxá hf. og Gullberg ehf. á Seyðisfirði.

Deila: