Deilt um stöðu ýsustofna

Deila:

Samtök útgerðarmanna í Skotlandi hafa hafnað ráðleggingum MCS um að fólk hætti að borða ýsu, vegna bágrar stöðu ýsustofna. Samtökin segja ráðleggingarnar heimskulegar og hvetja til áframhaldandi ýsuáts.

Það eru náttúruverndarsamtökin Marine Conservation Society, sem hafa tekið þrjá ýsustofna í Norðursjó og við vesturströnd Skotlands af lista sínum yfir tegundir sem teljast veiddar með sjálfbærum hætti á þeim forsendum þessum stofnum sé ógnað.

Ýsa er einn vinsælasti hvítfiskurinn á Bretlandseyjum og er sérstaklega vinsæl í fiski og frönskum. Skotar veiða mest af sinni ýsu á heimamiðum og fer hún að miklu leyti um markaðinn í Peterhead.

Engu að síður er uppistaðan af þeirri ýsu sem fiskverkendur nota og fer í fisk og franskar veidd við Ísland og í Barentshafi, þar sem ýsustofnarnir standa vel og leyfilegur heildarafli er miklu meiri en við Bretland. Vegna þess er talið að ýsuverð haldist stöðugt.

Bernadette Clarke, framkvæmdastjóri MCS leiðarvísis um ráðlagðar fisktegundir, Good Fish Guide, segir að þessar tegundir séu teknar af listanum vegna þess að rannsóknir bendi til breytinga í stofnunum. Sé staðan 2016 borin saman við 2015 er staðan undir viðmiðunarmörkum og komið að því að byggja verði stofnana upp að nýju með því að auka hlutfall kynþroska fisks í þeim. Hún leggur til að afli úr viðkomandi stofnum verði dreginn saman um helming.

Samkvæmt mati MCS falla um 47% allrar ýsu sem neytt er á Bretlandi undir gult eða rautt ljós, sem þýði að hennar skuli aðeins neytt einstaka sinnum eða alls ekki.

Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra útvegsmanna, hafnar þessum fullyrðingum MCS og segir að afleiðingarnar verði í fyrstu að hætti fólk að kaupa virkilega góða ýsu og muni hún því skemmast í fiskbúðunum. Hann segir að útgerðarmenn og sjámenn hafi lagt gífurlega mikið á sig til að viðhalda stærð fiskistofna, þar á meðal ýsu. Þeir hafni algjörlega niðurrifsstarfsemi af þessu tagi, hún sé heimskuleg, skaðleg og fólk eigi að leiða hana hjá sér.

Samtökin hafa lagt fram skýrslu frá vísindamönnum við háskólann í Aberdeen, þar sem fram kemur að aflaheimildir í flestum tilfellum sé mjög litlar í samanburði  við stofnstærðir. Munurinn á leyfilegum heildarafla og stofnstærð sé allt að sexfaldur.

Armstrong bendir á að sjómenn í Skotlandi fari eftir viðmiðunum vottunarsamtakanna Marine Stewardshið Council um hámarksafla og heldur ekki að Bretar hætti að borða ýsu. Viðskiptavinir treysti því með réttu að fisksalar séu ábyrgir. Þessi aðför sé algjörlega tilgangslaus og snúist upp í andhverfu sína ef fólk kynnir sér málin.

Deila: