Blængur með gullax og gullkarfa

338
Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Skipið hélt til veiða 4. febrúar en það hafði verið í slipp á Akureyri frá því í desember. Aflinn í veiðiferðinni var 471 tonn upp úr sjó að verðmæti 120 milljónir króna. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvar hefði verið veitt.

„Við byrjuðum á að leita að ufsa úti fyrir Norðurlandi. Það skilaði litlum árangri. Síðan var haldið austur fyrir land í grálúðu og þar var staldrað við í eina þrjá daga. Þá lá leiðin suður fyrir landið. Þar hófum við að veiða gulllax á Kötlugrunni og Sneiðinni og það gekk býsna vel. Leiðin lá þá á Selvogsbanka og Reykjanesgrunn og alveg vestur á Belgableyðu í ufsaleit. Staðreyndin er sú að það virðist vera lítið af ufsa um þessar mundir en hins vegar er nóg af ýsu og gullkarfa alls staðar. Við vorum á eilífum flótta undan ýsu og reyndar vorum við einnig að forðast þorsk. Það er alveg ótrúlegt að ýsukvóti skuli ekki vera aukinn. Þegar upp var staðið var uppistaða aflans í veiðiferðinni gulllax og gullkarfi. Við vorum með um 160 tonn af gulllaxi og um 130 tonn af gullkarfa. Veðrið í túrnum var almennt gott. Við fengum brælu þegar veitt var fyrir austan en annars var fantagott veður og hálfgerður vorbragur á veðrinu,“ segir Theodór.

Blængur heldur á ný til veiða  síðdegis í dag.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: