Kæra aðdróttun um mútuþægni

Deila:

Forstjóri og tveir starfmenn Matvælastofnunar hafa sent kæru á hendur einstaklingi til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Frá þessu er greint í frétt á vef Matvælastofnunar.

Kæran er að sögn send vegna greinar sem birtist á vefmiðli Vísis, visir.is, 16. júlí síðastliðin. „Í greininni segir að starfsfólk stofnunarinnar skaki sér í skrifstofustólum svo skrjáfi í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafi stungið í vasa þeirra um leið og þeir skrifi upp á rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar,” segir í fréttinni.

Þá er áréttað að Matvælastofnun vinni faglega að umsóknum um rekstraleyfi til fiskeldis og veiti rekstrarleyfi til fiskeldis uppfylli umsóknir skilyrði laga og reglugerða, samkvæmt hlutverki stofnunarinnar. „Forstjóri stofnunarinnar og starfsmenn sem komu að meðferð og útgáfu rekstrarleyfisins telja að með framkominni aðdróttun sé alvarlega vegið að heiðri og æru þeirra og því verði ekki komist hjá öðru en að kæra skrifin til lögreglu.”

Deila: