Hreinsuðu fjöruna við Húshólma

Deila:

Fyrir helgi komu þrír vaskir menn upp á bæjarskrifstofu Grindavíkur og óskuðu eftir íláti, pokum og áhöldum til að hreinsa fjöruna við Húshólma. Á leið sinni um svæðið sögðust þeir hafa séð svo mikið rusl, plast,netadræsur og netakúlur að þeir hafi hreinlega ekki getað horft aðgerðarlausir upp á draslið.

Haft var samband við Tómas Knútsson hjá Bláa hernum sem að sjálfsögðu bauð þá velkomna til sín að fá fjölnota sekki og annað sem til þurfti. Þeir létu þó ekki duga að mæta einu sinni. Daginn eftir fóru þeir fimm saman og á mánudaginn síðasta fóru þeir tíu saman og hreinsuðu rusl.

Í samtali við heimasíðu Grindavíkurbæjar sagði Maciej Tomasz Putala að verkefnið hafi farið hægt af stað en gengið hraðar með hverjum deginum. Þeir segjast ekki ætla að hætta að hreinsa fyrr en fjaran við Húshólma verið orðin hrein. Eftir það muni þeir finna sér næsta stað til að hreinsa.

„Það er aðdáunarvert þegar fólki er annt um náttúruna og landið sitt og brettir upp ermarnar eins og þessir ungu menn gerðu. Það er gaman frá því að segja að mennirnir eru allir pólskir en þeir búa í Reykjanesbæ,“ segir á síðunni.

 

 

Deila: