Stytta hafnargarð í Vestmannaeyjum

Deila:

Algengt er að hafnargarðar séu lengdir þegar verið er að þróa og bæta hafnarmannvirki en sjaldgæfara að hafnaraðstaðan sé bætt með því að stytta þá. Þetta er engu að síður raunin í Vestmannaeyjum en bæjaryfirvöld hafa samþykkt og auglýst skipulagstillögu um að stytta svonnefndan Hörgaeyrargarð um allt að 90 metra. Samkvæmt upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ var garðurinn gerður á sínum tíma til að verja höfnina fyrir ágangi sjávar en í dag þykir hann þrengja um of að siglingu stórra skipa um höfnina. Sér í lagi hafi skapast hættulegar aðstæður og hafi legið við árekstri þegar skip liggja við Nausthamarsbryggju. Því sé stytting garðsins til þess fallinn að gera stærri skipum auðveldara að athafna sig.
Til fellur talsvert efni í þessari framkvæmd þegar þar að kemur en ráðgert er að nota það í viðhald annarra hafnarmannvirkja og til annarrar uppbyggingar á Heimaey.

Auglýst hefur verið eftir skriflegum umsögnum og ábendingum vegna tillögunnar og verður frestur veittur til 8. febrúar.

Meðfylgjandi mynd sýnir legu Hörgaeyrargarðs.

 

Deila: