Samdráttur í afla og verðmæti

Deila:

Samkvæmt upplýsingum frá HB Granda, voru skip félagsins með samtals 141.867 tonna afla á árinu 2016 og var aflaverðmætið tæpir 14 milljarðar króna. Þetta er samdráttur í afla upp á rúm 19% milli ára en aflaverðmætið á sama tíma dróst saman um 16%.

Í tölum um afla og aflaverðmæti skipa HB Granda má lesa að uppsjávarskipin tvö, Venus NS og Víkingur AK, voru með samtals tæplega 95.600 tonna afla í fyrra að verðmæti rúmlega 3,7 milljarða króna. Þetta er verulegur samdráttur frá árinu 2015 en þá nam afli þriggja uppsjávarskipa félagsins tæplega 128 þúsund tonnum og aflaverðmætið var tæpir 4,6 milljarðar króna. Þetta samsvarar 25% aflasamdrætti og 19% minni verðmætum en á árinu 2015. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að verulega dró úr loðnuafla milli ára eða alls um 41 þúsund tonn.

Frystitogarar HB Granda, sem eru þrír talsins, voru með samtals tæplega 21 þúsund tonna afla í fyrra og aflaverðmæti þeirra var tæpir 5,9 milljarðar króna. Aflasamdrátturinn var ekki nema rúm 2,5% en aflaverðmætið í íslenskum krónum lækkaði hins vegar um rúm 15% milli ára. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til styrkingar krónunnar gagnvart gjaldmiðlum í helstu viðskiptalöndum. Vert er að taka fram að aflaverðmæti frystitogaranna er miðað við FOB verð bæði árin og sömuleiðis gætu tölur breyst örlítið við endanlegt uppgjör fyrir síðustu landanir viðkomandi togara.

Afli ísfisktogaranna fjögurra dróst saman um rúm 4% milli ára. Hann var tæplega 25.300 tonn að verðmæti rúmlega 4,4 milljarða króna. Það er rúmlega 14% samdráttur milli ára.

Ef litið er á togaraflotann í heild var aflinn tæplega 46.300 tonn að verðmæti tæplega 10,3 milljarða króna. Aflasamdrátturinn milli ára er um 3,5% og verðmæti togaraaflans dróst á sama tíma saman um 15%

Nánari upplýsingar um afla einstakra skipa sem og heildartölur í útgerðarflokkum er að finna í meðfylgjandi töflu:

Afli og aflaverðmæti skipa HB Granda árið 2016        
  2016 2015
  Afli (tonn) Verðm (þ. ISK) Afli (tonn) Verðm (þ. ISK)
Uppsjávarskip        
Faxi RE9 38.618 1.416.319
Ingunn AK 150 36.387 1.202.358
Lundey NS 14 30.808 1.151.342
Venus NS 150 50.492 1.947.485 22.146 824.445
Víkingur AK 100 45.102 1.760.279
         
Uppsjávarskip samtals 95.594 3.707.764 127.959 4.594.464

Frystitogarar        
Höfrungur III AK 250 7.043 1.904.347 7.379 2.557.331
Þerney RE 101 6.893 2.127.422 5.952 2.054.136
Örfirisey RE 4 7.061 1.832.784 8.218 2.314.685
  20.996 5.864.554 21.549 6.926.152
Ísfisktogarar        
Ásbjörn RE 50 6.454 1.134.588 6.723 1.326.514
Ottó N. Þorláksson RE 203 6.239 1.074.981 6.152 1.214.496
Sturlaugur H Böðvarsson AK 10 5.911 1.063.766 6.579 1.318.155
Helga María AK 16 6.672 1.132.137 6.969 1.291.859
  25.277 4.405.472 26.424 5.151.024
         
Togarar samtals 46.273 10.270.025 47.973 12.077.176

 

Deila: