Úrslitafundur á mánudag
Sjómannaforystan og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) funduðu í dag hjá ríkissáttasemjara. Formenn voru svartsýnir en úrslitafundur er framundan á mánudaginn. Þá verður ítarlegri og betri kynning á kröfum sjómanna og sjá hvort einhver flötur sé fyrir sátt.
Þetta sagði Jens Garðar Helgason, formaður SFS í samtali við ruv.is í gær. „Í dag var farið yfir kröfur beggja aðila og ákveðið að menn myndu leggja í ákveðna vinnu yfir helgina og svo er fundur eftir helgi. Á mánudaginn skýrist betur hvort að menn eru að ná einhverjum áframhaldandi gangi í viðræðum út frá þeim kröfum sem eru á borðinu.“
Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, segist hafa ítrekað það sem lagt var fram 20. desember. „Við erum náttúrulega með mjög stóran hóp manna á mörgum skipflotum þannig sýnin er mjög misjöfn hjá mönnum. Þannig þetta, þessi atriði, voru endirinn á þessu öllu saman. Það var samhljómur í öllum hópnum hjá okkur að leggja þetta fram og fara með þetta. Þetta myndi geta leyst kjarasamningana ef við myndum fá þetta samþykkt og við færum með þetta í atkvæðagreiðslu.“
Kröfur sjómanna
Þessar kröfur sjómanna hafa áður komið fram í fréttum RÚV. Aðalkröfur eru að tekið verði til skoðunar sjómannaafsláttur og olíuverðstenginguna. Þá krefjast sjómenn einnig fatapeninga, fæðispeninga og að fjarskiptamálin verði skoðuð.
Jens Garðar segir að með síðasta samningi hafi verið gefið mjög mikið eftir. „Það verður náttúrulega að taka tilllit til þess að sjómenn hafa talað um það að þeirra tekjur hafi lækkað sem nemur styrkingu krónunnar og ekki sýst fall breska pundsins, sem er gríðarlega stór og mikilvægur markaður fyrir okkur, en þá mega menn ekki gleyma því að tekjur fyrir útgerðafyrirtækin hafa lækkað að sama skapi. Þannig ég held að það sé mjög lítið svigrúm að sækja miklar og aukin útgjöld til fyrirtækjanna eins og staðan er núna.“