Hreint Haf – Hagur Íslands
„Hafið okkar er okkar dýrmætasta auðlind og virðing fyrir því verður að vera okkar helsta baráttu málefni. Þið ágætu sjómenn berið mikla ábyrgð á því að auðlindin og lífríki þess endist okkur vel og lengi. Núna eru margar blikur á lofti í málefnum hafsins, það eru stöðugar ráðstefnur um alls konar hættur sem steðja að lífríki hafsins og skal engan undra, umgengni við hafið hefur ekki verið uppá marga fiska undanfarin ár og áratugi.“
Svo segir Tómas Knútsson, stofnandi og formaður Bláa hersins í grein um starfsemi hans. Þar segir hann ennfremur:
„Það er talið að á hverju ári fari um 10 % af því plasti sem framleitt er beint eða óbeint í hafið. Þetta eru risatölur og talað er um milljónir tonna. Víða eru strandlengjur svo þaktar af rusli og drasli að það sést ekki í sandinn, svo eru heilu plastflekkirnir fljótandi í straumhvörfum og þar eru flekkirnir sem eru taldir stærstir á stærð við Frakkland svo dæmi sé tekið. Svartsýnustu skýrslur segja að það muni ekki vera nema fáir áratugir þangað til að það er meira plast í hafinu en fiskar. Hvað er til ráða gætu sumir spurt sig. Það þarf auðvitað að finna lausnir svo ekki fari mjög illa.
Fyrir rúmum 20 árum hóf undirritaður að benda á umgengni í og við hafnir og strendur landsins, í byrjun var þessi barátta mjög svo erfið og fórnarkostnaðurinn var mikill. Alls kyns fólk, örugglega hið besta fólk kallaði mig klikkaðan og sjúkan mann sem greinilega vantaði athygli. Ég var menntaður sportköfunarkennari og hafði stundað köfun í hartnær 20 ár. Köfunarferill minn byrjaði þegar ég var 16 ára árið 1973 og mitt fyrsta alþjóðlega skírteini var gefið út árið 1976 sem sportkafari. Árið 1991 lærði ég til sportköfunarkennara og byrjaði á fullu að breiða út þann boðskap að virða hafið fyrir mínum nemendum. Erlendis þar sem að ég lærði var brýnt fyrir okkur að ástunda í kennslunni okkar að kynna nemendum fyrir umhverfisverkefnum sem hægt væri að gera sem sportkafari.Það eru mörg stig sem hægt er að læra sem sportkafari og þegar reynslan er farin að segja til sín í sportinu er hægt að fara að t.d. lyfta að hafsbotni léttum hlutum með lyftibelgjum,tína rusl í poka og fleira sem nóg er af á botninum. Allar hafnir eru stútfullar af drasli sem í flestum tilfellum kemur frá sjómönnum, því miður.
Þarna fæddist hugmyndin að stofnun Bláa hersins sem undirritaður hefur rekið sem sjálfboðaliði allan tímann. Þau verkefni sem við höfum staðið fyrir eru yfir 130 talsins, sjálfboðaliðar eru yfir 2000 frá upphafi og unnar hafa verið yfir 54 þúsund vinnustundir við að þrífa strandlengjuna,nokkar hafnir og mörg opin svæði, aðallega á Reykjanesinu en einnig höfum við farið í heimsóknir út á land. Samtals hefur verið tekið úr náttúru landsins yfir 1300 tonn af drasli(hráefni) og farið með í endurvinnslu.
Næsta verkefni Bláa hersins er samstarfsverkefni með öflugum aðilum sem vilja endurvinna ruslið úr fjörunum.Hingað til eru veiðarfærin um helmingur af því sem er í fjörunum, hitt er plast sem annað hvort er fleygt í hafið eða skolast af landi og útí sjó. Þær fjörur sem við förum reglulega og þrífum en þær eru 7 talsins á Reykjanesinu eiga það sammerkt að það er um 1 tonn af rusli á kílómetranum. Þetta er allt of mikið og er í raun algjörlega óásættanlegt.Veiðarfærin sum hver veit ég að þið missið við veiðar en annað fer óvart í hafið.Einnota ílát og olíubrúsar er ofsalega algeng sjón því miður.
Á síðustu Sjávarútvegssýningu var ég með til sýnis og glöggvunar fyrir gesti og gangandi sýningarglugga með rusli úr hafinu og af hafsbotni. Þið sögðum mér margar sögur af því hvernig þessum málefnum væri háttað umborð hjá ykkur og ég var mjög snortinn að heyra hvernig sumar útgerðir eru hreinlega með þetta allt á hreinu. EN einhverra hluta vegna fer ennþá allt of mikið rusl í hafið, ef við tökum okkur tak og hugsum þetta þannig að hafið er rúmið okkar þar sem við ætlum að sofa þá er ég fullviss um að þið mynduð ekki vilja hafa það fullt af drasli eftir erfiðan dag við veiðar.
Blái herinn skorar á ykkur kæru sjómenn að hugsa vel og vandlega um þessa mestu auðlind okkar, koma með það í land sem þið ekki notið meir og setjið í réttan endurvinnsluferil og þá er ég viss um að með tíð og tíma snúum við þessari óheillaþróun við og hafið verður áfram okkar mesta auðlind um aldur og ævi.
Ef einhverjir áhugasamir aðilar vilja sjá veg og vanda Bláa hersins í framtíðinni sem mestan þá eru frjáls framlög alltaf vel þegin, við höfum oft viljað hætta en þá kemur alltaf eitthvað jávætt til okkar sem heldur okkar baráttu áfram. Núna treysti ég á ykkur á fleiri en einu sviði að hjálpa okkur að hafa auðlindina sem hreinasta. Það kostar blóð, svita og tár. Góðar stundir.“