Sveitarfélögin spurð um áhrif fiskeldis
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hefur sent út spurningarlista um áhrif fiskeldis á sveitarfélögin. Er það liður í stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi sem þáverandi sjávarútvegsráðherra boðaði í haust. Starfshópur til að móta stefnuna var skipaður í desember. Liður í stefnumótuninni er að horfa til þess hvernig umfang og þróun fiskeldis hefur áhrif á sveitarfélögin með tilliti til þátta eins og samfélags-, umhverfis- og skipulagsmála, byggðaþróunar, tekna og gjalda svo fátt eitt sé nefnt.
Þegar skipun starfshópsins var tilkynnt var tekið fram að stefnumótun í fiskeldi væri sérstaklega brýn vegna hins hraða vaxtar greinarinnar. Í henni þarf m.a. að horfa til stjórnsýslu og rannsókna, almennra starfsskilyrða greinarinnar, umhverfismála, hættu á erfðablöndun við villta stofna, sjúkdóma og sníkjudýra, menntunarmála, gjaldtöku, markaðsmála og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið.
Í starfshópnum eru:
Baldur P. Erlingsson formaður, skipaður af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Sigurbjörg Sæmundsdóttir, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Guðmundur Gíslason, tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva
Kjartan Ólafsson, tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva
Óðinn Sigþórsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga
Bryndís Björnsdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Vinnu starfshópsins á að ljúka eigi síðar en 30. júní 2017 en bæjarráð Ísafjarðar tók fyrir spuningalista starfshópsins á fundi bæjarráðs í vikunni.