300 strokulaxar úr Patreksfirði

Deila:

Tæplega 300 eldislaxar úr Patreksfirði hafa borist Hafrannsóknastofnun til greiningar á þessu ári. Laxarnir eru 297 talsins en alls hafa 306 eldislaxar verið greindir á árinu. Þetta kemur fram á vef Hafró.

Þar segir að 416 meintir eldislaxar hafi borist til greiningar á uppruna árið 2023.

„Af 416 meintum eldislöxum hafa 298 verið greindir til uppruna. 110 laxar eru enn í greiningu. Átta laxar af norskum uppruna og með útlit eldislaxa hafa ekki enn verið greindir til upprunastaðar.

Af samtals 306 greindum eldislöxum hafa 297 verið raktir til kvíaþyrpingar í Patreksfirði þar sem tilkynnt var um strok fyrr á þessu ári.

Einn eldislax, sem veiddist í Sunndalsá í Trostansfirði/Arnarfirði, var úr stroki úr kví í Arnarfirði árið 2021. Laxinn var 82 cm og 6 kg og hafði verið tvö ár í sjó áður en hann gekk í ánna.”

Unnið er að rakningu átta strokulaxa með erfðagreiningu fleiri viðmiðunarsýna frá þeim hængum sem notaðir hafa verið til undaneldis. Eldislaxarnir sem ekki hefur tekist að rekja til framleiðenda veiddust í Hvítá í Borgarfirði, Patreksfirði, Hvannadalsá, Hrútafjarðará, Miðfjarðará, Laxá á Refasveit, Geirlandsá og Kálfá.

Deila: